144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

376. mál
[21:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tala fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi. Ég er ekki skráður framsögumaður heldur hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir en hún er fjarverandi þannig að ég leysi hana af hér.

Þetta er nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Málið var til umfjöllunar í nefndinni og þangað komu á fund bæði fulltrúar frá innanríkisráðuneytinu og eins frá ríkislögreglustjóra og umsögn barst einmitt frá því embætti.

Markmið frumvarpsins er að innleiða þrjár Schengen-gerðir sem nauðsynlegt er talið að innleiða svo Ísland uppfylli þær alþjóðlegu skuldbindingar sem það undirgengst með þátttöku í Schengen-samstarfinu. Auk þess eru lagðar til tvær breytingar varðandi eftirlitshlutverk Persónuverndar vegna skráningar í Schengen-upplýsingakerfið.

Breytingarnar sem framangreindar gerðir hafa í för með sér á núgildandi lögum eru til komnar vegna gangsetningar á nýrri kynslóð Schengen-upplýsingakerfisins. Þær fela í sér að fjölgað er tegundum upplýsinga sem hægt er að skrá inn í kerfið og helstu nýjungarnar þar eru skráningar á fingraförum og myndum af eftirlýstum einstaklingum auk skráningar evrópskrar handtökuskipunar í þeim tilvikum þegar slík handtökuskipun hefur verið gefin út af þar til bæru yfirvaldi í Schengen-ríkjunum. Þá er gert ráð fyrir þeirri nýjung að heimilt verður að tengja skráningu í kerfinu og þannig komið á venslum milli tveggja eða fleiri skráninga í kerfið.

Þetta mál var mikið rætt í nefndinni og menn veltu vöngum yfir því hvort þeir gengju of langt í sambandi við skráningar. Meðal annars er í tillögunni bætt við ákvæði er varðar skyldur ríkislögreglustjóra til að bregðast við athugasemdum og fyrirmælum Persónuverndar þegar í stað og eigi síðar en innan þriggja mánaða ef athugasemdir berast varðandi skráningar eða afgreiðslu á upplýsingum um skráningu í kerfinu.

Markmið breytinganna á lögunum er að treysta eftirlitshlutverk Persónuverndar gagnvart ríkislögreglustjóra, auk þess sem ákvarðanir ríkislögreglustjóra megi bera undir úrskurð Persónuverndar. Það komu í umsögn ríkislögreglustjóra athugasemdir varðandi eftirlitshlutverk Persónuverndar. Ein athugasemd gekk fyrst og fremst út á að hann taldi að Persónuvernd væri ekki æðra stjórnvald gagnvart ríkislögreglustjóra í skilningi stjórnsýslulaga og þess vegna væri erfitt að hafa þetta form á. Samkvæmt ríkislögreglustjóra væri óumdeilt að innanríkisráðuneytið væri hið æðra stjórnvald gagnvart ríkislögreglustjóra og því eðlilegt að ákvarðanir ríkislögreglustjóra sættu kæru þangað fremur en til Persónuverndar.

Meiri hluti nefndarinnar bendir á að 5. gr. frumvarpsins er til komin vegna þess að skort hefur á heimild Persónuverndar til að geta knúið fram nauðsynlegar úrbætur vegna þess sem betur má fara við starfrækslu Schengen-upplýsingakerfisins, auk þess sem skort hefur á valdheimild Persónuverndar til að taka bindandi ákvarðanir hvað þetta varðar.

Meiri hlutinn áréttar að með frumvarpinu er ekki lögð til breyting á viðurkenndri réttarreglu stjórnsýslulaga um að ákvarðanir lægri stjórnvalda séu kæranlegar til æðri stjórnvalda, samanber 26. gr. stjórnsýslulaga. Með 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um framkvæmd eftirlitshlutverks Persónuverndar um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga sem meðal annars kveður á um að Persónuvernd úrskurði í ágreiningsmálum sem kunna að koma upp í vinnslu persónulegra upplýsinga á Íslandi. Niðurstaða nefndarinnar varð að viðhalda þessu ákvæði og lagði hún mikla áherslu á að Persónuvernd hefði aðild að málinu og þegar einstaklingar kæmu með kvartanir um skráningar í kerfið gætu þeir kært það til Persónuverndar varðandi ákveðna þætti. Það er verið að tala um 13.–15. gr. laganna um Persónuvernd, en það færi sem sagt ekki beint til innanríkisráðuneytisins. Það er áréttað engu að síður og tekið fram í þessum tengslum að Ísland hefur í tvígang fengið athugasemdir við það fyrirkomulag að umræddar ákvarðanir séu samkvæmt núgildandi lögum kæranlegar til innanríkisráðuneytisins en ekki Persónuverndar. Athugasemdirnar voru gerðar af föstu eftirlitsnefndinni með Schengen-samstarfinu í kjölfar úttekta bæði árið 2005 og árið 2011. Vegna þátttöku í Schengen-samstarfinu er Ísland skuldbundið til að árétta hlutverk Persónuverndar líkt og lagt er til með frumvarpinu. Það er alveg klár niðurstaða að menn velja að fylgja þeirri ábendingu og þeirri sjálfsögðu réttarvernd að Persónuvernd geti fjallað um mál einstaklinga sem snúa að skráningum þeirra inn í þetta kerfi.

Að öðru leyti er lagt til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir þetta rita hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður nefndarinnar, Líneik Anna Sævarsdóttir, skráður framsögumaður nefndarálitsins, Páll Valur Björnsson, Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Árnason og sá sem hér stendur, Guðbjartur Hannesson.