144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

arður sjávarútvegsfyrirtækja og veiðigjöld.

[11:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef áhuga á að eiga orðastað við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í tilefni af því að í fyrradag birti fyrirtækið HB Grandi uppgjör sitt fyrir árið 2014. Nú er HB Grandi vissulega ekki bara hvaða sjávarútvegsfyrirtæki sem er, það er kvótahæsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og eitt alsterkasta fyrirtækið en það er í blönduðum rekstri, bæði í uppsjávar- og bolfisksveiðum og -vinnslu og afkoma þess hlýtur því að vera að einhverju leyti skilaboð um það hvernig gengur í greininni. Þetta var blómlegt ár hjá félaginu. Hagnaðurinn jókst um 200 milljónir og var hann þó ærinn fyrir. Fyrirtækið gerir upp með 5,5 milljarða hagnaði. Framlegðin, EBITDA, er 7,5 milljarðar, 7.500 millj. kr., og vex um 700 milljónir. Það er athyglisverð tala borin saman við þá staðreynd að greidd veiðigjöld HB Granda lækka um nákvæmlega 700 millj. kr. milli ára, þ.e. 35%. Þau voru um 1,8 milljarðar kr. árið 2013 en fara niður í rúmlega 1,1 milljarð árið 2014.

Með öðrum orðum, framlegðin vex um 700 milljónir, nákvæmlega sömu tölu og greidd veiðigjöld lækka um. 700 millj. kr. eru fluttar af auðlindarentu frá þjóðinni til eigenda HB Granda sem gera svo vel við sjálfa sig og greiða sér annað árið í röð um 2,7 milljarða kr. í arð. Eigendur HB Granda hafa fengið hátt í 6 milljarða kr. í arð á tveimur árum en þjóðin langt innan við 3 milljarða í veiðigjöld. Þetta eru athyglisverðar staðreyndir.

Ég vil því spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra: Var ekki ofrausn, a.m.k. í tilviki stóru fyrirtækjanna, að lækka veiðigjöldin svona mikið, taka svona mikinn arð frá þjóðinni vegna nýtingar hinnar sameiginlegu auðlindar? Er ekki skynsamlegt að hæstv. ráðherra hafi þessar afkomutölur til hliðsjónar þegar hann (Forseti hringir.) leggur vinnu í að ganga frá frumvarpi um veiðigjöld á næsta fiskveiðiári í ljósi þess líka, herra forseti, að allt bendir til (Forseti hringir.) að árið 2015 (Forseti hringir.) verði, ef eitthvað er, (Forseti hringir.) enn þá betra?