144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er komið til 3. umr., lokaumræðu, frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Ég var veikur heima í 2. umr og fylgdist með henni þaðan og gerði hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir mjög vel grein fyrir áliti okkar í 2. minni hluta og breytingartillögum í því. Ég ætla að nota mér þann tíma sem ég hef við 3. umr. til að gera frekari grein fyrir sjónarmiðum mínum hvað það varðar.

Fyrir það fyrsta vil ég segja að ég hef lengi talað fyrir jöfnun upphitunarkostnaðar í landinu. Þess vegna var það einn hluti breytingartillagna okkar að ganga strax í það verkefni, verkefni sem var rætt í atvinnuveganefnd og var töluvert mikill samhljómur um en náði því miður ekki í gegn og varð ekki að breytingartillögu þeirrar ágætu nefndar. Það náði ekki í gegn þar en var í breytingartillögum okkar sem voru um að hafa endaskipti á þessu og byrja á jöfnun á húshitunarkostnaðinum strax á þessu ári, sem átti að kosta einar 250 milljónir, ef ég man rétt, til að ráðast gegn því mikla óréttlæti sem fólk sem kyndir hús sín býr við eftir því hvar það býr á landinu.

Þetta frumvarp snýr að því að jöfnunargjaldið verði lagt á dreifiveitur til að jafna í dreifbýli með því að leggja álögur á íbúa í þéttbýli og, eins og frumvarpið segir til um og stjórnarmeirihlutinn hefur samþykkt, að leggja 30 aura á hverja kílóvatttstund sem gefur tæpan milljarð þegar allt verður komið til framkvæmda og fer í þessa jöfnunaraðgerð. Ég ítreka þá og segi: Það er allt saman gott hvað varðar að leggja það í sjóðinn til jöfnunar. Jafnframt það að leggja 10 aura á hverja kílóvattstund í skerðanlegri raforku.

Ókosturinn við þá leið er sá, og það gerir það að verkum að ég gat ekki stutt hana, er að þarna er verið að leggja auknar byrðar á íbúa í þéttbýli til þess að greiða niður hjá íbúum í dreifbýli. Það var þess vegna sem ég og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir lögðum til að raforkuskatturinn, sem var lagður á á erfiðleikatímum okkar í tíð síðustu ríkisstjórnar og fellur niður um næstu áramót, yrði framlengdur en lækkaður um helming. Ég vil leggja áherslu á þetta: Yrði lækkaður um helming þannig að skatturinn mundi í stað þess að gefa 2,3–2,4 milljarða gefa milljarðinn sem vantar í heildaraðgerðina. Við vorum líka að bregðast við því sem er í tillögu meiri hlutans, í tillögu ráðherra, að þær 240 milljónir sem eru á fjárlögum og hafa verið notaðar í þessa niðurgreiðslu undanfarin ár falli niður. Með öðrum orðum: Ríkissjóður ætlar að hætta að greiða 240 milljónir úr ríkissjóði og taka það allt saman af raforkunotendum í þéttbýli.

Sú leið sem stjórnarmeirihlutinn er að fara er verri en okkar og ég harma að við skyldum ekki hafa náð samstöðu um að lækka raforkuskattinn um helming og að allir raforkukaupendur, þar með talið stóriðjan sem kaupir um 85% af allri orku, legðu sitt í þetta mikla jöfnunarátak, þessa jöfnunaraðgerð. Sú tillaga var því miður felld. Þá stöndum við eftir með það að tillaga meiri hlutans mun ná fram að ganga sem gerir það að verkum, við sjáum það í gögnum sem fylgdu með frumvarpinu frá ráðuneytinu, að kostnaður hækkar um 15–19 þúsund kr. hjá notendum rafhitunar í þéttbýli. Ef við tökum sem dæmi Orkubú Vestfjarða mun raforkukostnaður hjá þeim sem búa í kaupstöðum eða sveitarfélögum hækka. Við getum tekið sem dæmi íbúa í Bolungarvík en þeir munu fá hækkunina á sig á meðan íbúar í næsta nágrenni eða í Ísafjarðardjúpi munu fá aðeins minni lækkun. Þetta er því í raun þannig að íbúar í þéttbýli sem nota rafhitun greiða hærra verð en íbúar í dreifbýli.

Ég spyr hæstv. forseta hvort ég eigi ekki meiri tíma en 15 mínútur nú í lokin?

(Forseti (SJS): Jú.)

Mig minnti það.

Einn þáttur hefur ekki verið ræddur núna og það er vegna þess að þetta frumvarp var flutt í fyrra en kláraðist ekki. Þá skiluðu mjög margir inn athugasemdum og meðal annars kom fram álit frá HS Veitum, eins og það heitir, þar sem bent var á nokkuð sem ég hef áður gert að umtalsefni en finnst menn ekki hafa áttað sig alveg á: Við það að hækka skerðanlega orku um 10 aura á hverja kílóvattstund hækkar upphitunarkostnaður íbúa á því svæði sem nota fjarvarmaveitur. Við getum tekið sem dæmi, af því að ég nefndi HS Veitur, íbúa í Vestmannaeyjum. Íbúar í Vestmannaeyjum munu fyrst fá á sig hækkun vegna sölu á skerðanlegri orku til fjarvarmaveitna, þá fá þeir á sig hækkun á rafhitun sinni, síðan fá þeir aðra hækkun sem er við 30 aurana á hverja kílóvattstund og svo kemur niðurgreiðslan til, eins og frumvarpið segir til um. Staðan verður sú að íbúar í Vestmannaeyjum munu greiða meira, af því að þeir fá á sig tvöfalda hækkun. Sama á við um aðrar fjarvarmaveitur sem eru víða um landið, en ég ætla ekki að hætta mér út í það að fara að telja upp alla þá staði. Þetta er vegna þess hversu flókið málið er í raun og breyting á einum þætti hefur margvíslegar breytingar á ýmsum öðrum þáttum í för með sér, eins og ég gerði að umtalsefni.

Samtök atvinnulífsins vöruðu við þessari leið og sögðu einfaldlega varðandi það sem kemur fram í frumvarpinu í mati ráðuneytisins og fjármálaráðuneytis um kostnaðarauka við þetta að þau drægju mjög í efa það álit Hagstofunnar að leiðin hefði engin áhrif á vísitölu neysluverðs. Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins segja alveg skýrt að þetta sé ekki rétt og að þessi leið muni hafa áhrif á vísitölu neysluverðs. Auðvitað er það svo, virðulegi forseti, að hækkunin mun mælast inn í og hækka vísitölu neysluverðs þannig að allir munu fá á sig hækkun hvað það varðar. Þetta er vegna þess hversu flókið það er að fara í gegnum þessi atriði.

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma aftur að breytingartillögum 2. minni hluta, sem var skipaður mér og hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur. Í ágætu nefndaráliti sem við skiluðum inn leggjum við til alveg skýrt að í staðinn fyrir að hækka orkuna um 30 aura á kílóvattstund á almenna notendur og 10 aura í skerðanlegri orku verði raforkuskatturinn framlengdur og, ef ég man rétt, færi niður í 0,065 aura á hverja kílóvattstund. Hann mundi sem sagt lækkað um helming. Mér finnst, sérstaklega þegar við skoðum ýmsar afkomutölur hjá fyrirtækjum, stóriðjufyrirtækjum og þeim sem kaupa mikið, hjá Landsvirkjun og öðrum orkufyrirtækjum, að sú leið hefði verið sanngjörn. Það þarf enginn að segja mér að þetta hefði ruglað eitthvað stöðu okkar á Íslandi varðandi það að geta laðað til okkar netþjónabú eða aðra stóra vinnustaði. Það segir mér enginn að þetta hefði skilið á milli feigs og ófeigs í því, þessir 0,065 aurar eða milljarður, sem er hlutfallslega reiknaður, 850 milljónir frá öllum stórnotendum á Íslandi og 150 milljónir frá almenningi þar með taldar. Og rétt er að hafa í huga að í raforkuskattinum er, ef ég man rétt, lagður 2% skattur á hitaveitur sem leggja þá í þetta púkk. Það getur auðvitað breytt örlítið hlutfallslega þeim tölum sem ég var með áðan, lækkað báðum megin og koma peningar inn frá hitaveitum, sem ég er ekki með skiptinguna á, hvernig hún væri.

Það kemur líka fram í því gagni sem fylgdi málinu og kemur frá ráðuneytinu að upphitunarkostnaður hjá þeim sem búa við jarðvarmaveitu í Reykjavík var í kringum 97.500 kr. á ári. Hann hækkar auðvitað örlítið út af vaski og lækkar eitthvað, en erfitt er að segja til um nákvæmlega hvaða tölu hækkunin hefur í för með sér. Miðað við þær forsendur sem settar eru fram, og ég hef ekki tíma til að fara í gegnum, hvað það eru margar kílóvattstundir og stærð á húsi o.s.frv., er kostnaður við jarðvarmaveitu í Reykjavík um 100 þús. kr. og um 95 þús. kr. á Akureyri. En við skulum hafa það í huga að hjá þeim sem eru á svæðum með kynta hitaveitu eða fjarvarmaveitu sem fær á sig núna 10 aura hækkun plús almenningur sem fær á sig 30, þar eru þetta um 210–220 þús. kr.

Eins og ég sagði áðan er gallinn við þá leið ríkisstjórnarinnar að leggja þetta svona á notendur í þéttbýli sú hækkun sem það hefur í för með sér. Í raun væri hægt að finna upplagða staði á Íslandi þar sem ekki er mjög langt á milli þess sem telst þéttbýli, þéttbýli er fyrir ofan 200, og þess sem telst dreifbýli, þ.e. fyrir neðan 200, það geta verið fáir kílómetrar þar á milli. Sá sem er í þéttbýlinu fær á sig 15–20 þús. kr. hækkun, ég verð að hafa bilið svolítið breitt vegna allra þeirra breytinga sem verða og hafa áhrif, og svo er lækkun um svipaða upphæð hjá þeim sem eru í dreifbýli í nokkurra kílómetra fjarlægð. Íbúar í þéttbýli verða sem sagt komnir upp fyrir íbúa í dreifbýli.

Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi komið því rækilega til skila að ég hef alla mína tíð á Alþingi talað fyrir jöfnun á upphitunar- og húshitunarkostnaði og að sem mest jafnræði ætti að vera þarna á milli með niðurgreiðslukerfi og eftir atvikum skattheimtum, eins og við höfum talað um, sem er raforkuskatturinn, til þess að jafna muninn. Ég held að það sé ekki mjög flókið. Það var bara þannig að ráðuneytið festi sig við þessa leið og neitaði að skoða aðrar leiðir.

Ég ítreka að í breytingartillögum okkar í 2. minni hluta var það þannig að niðurgreiðslur til upphitunar húsnæðis, það sem vantar 250–300 millj. kr. upp á, sú aðgerð hefði líka komið strax til. Við lögðum til að ríkissjóður, sem fær inn ýmsar tekjur núna sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum, eins og arðgreiðslur o.fl, legði út fyrir því á þessu ári til að hefja aðgerðirnar strax en fengi það greitt til baka með sambærilegum raforkuskatti fyrir árið 2016. Svo var í bráðabirgðaákvæði hjá okkur sett inn að í framtíðinni, 2017, mundi hann lækka um helming og fara niður í 0,065 aura á kílóvattstund.

Ég harma þetta og kenni því svolítið um að ekkert allt of margir þingmenn hafa sett sig inn í þetta mál, eins og gerist oft. Það er flókið, það er erfitt að fara í gegnum. Ég vil geta þess að við fengum upplýsingar frá deildinni sem er á Akureyri, sem fjallar mikið um þessi mál. Þeir sendu okkur ný gögn og fóru í gegnum þau á símafundi, sem var að vísu svolítið erfitt, og síðan fengum við gögnin á eftir og fórum í gegnum þau í nefndinni. Ég held að við höfum að lokum skilið það sem sett var fram, allar breytingarnar sem hafa áhrif á aðra þætti o.s.frv. Niðurstaðan er samt sem áður sú í þessu góða máli um þá fögru hugsun að jafna húshitunarkostnað að við í 2. minni hluta höfum bent á miklu, miklu betri leið en frumvarpið gerir ráð fyrir. Því miður hefur hún ekki ratað inn, hún hefur ekki hlotið náð fyrir eyrum stjórnarliða og þess vegna var tillaga okkar felld við 2. umr. Eins og ég sagði áðan gat ég ekki tekið þátt í þeirri umræðu en vildi því taka þátt í umræðunni núna og koma sjónarmiðum mínum á framfæri. Ég vona að þetta mál verði til heilla en bendi á agnúana á því og bendi sérstaklega á það sem lítið hefur verið rætt núna og er vegna þess að þau fyrirtæki sem sendu okkur umsögn í fyrra sendu ekki inn nýjar umsagnir heldur vísuðu í þær gömlu. Menn verða því að fara inn í málið á síðasta þingi til að skoða álitin frá HS Veitum og fleirum sem bentu á þann ókost sem frumvarpið hefur för með sér, þ.e. hækkun hjá fjarvarmaveitunum þannig að þeir sem búa við fjarvarmaveitur fá aukinn og meiri kostnað á sig.

Virðulegi forseti. Nú sýnist mér að ég eiga eftir þann tíma sem bætt var á mig. Ég hef samt sem áður lokið máli mínu.