144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil aðeins halda áfram að ræða þetta merka mál. Eins og hv. þingmaður kom inn á var ég framsögumaður við 2. umr. á minnihlutaáliti með breytingartillögu sem ég og hv. þm. Kristján L. Möller fluttum. Sú breytingartillaga var felld, eins og komið hefur fram, við 2. umr.

Ég tel að það hafi verið mjög misráðið að meiri hluti atvinnuveganefndar hafi ekki tekið undir þá leið sem við lögðum þar til. Ég tel að það hefði verið leið sem miklu breiðari sátt hefði náðst um, ekki bara á milli dreifbýlis og þéttbýlis heldur líka milli þeirra aðila sem eru undir dreifiveitum og þeirra stórnotenda sem eiga í hlut. Eins og þetta er lagt upp núna þá er eingöngu þeim aðilum sem falla undir dreifiveitur gert að jafna innbyrðis. Sú útfærsla kemur vissulega ekki niður með réttlátum hætti varðandi dreifingu raforku eins og komið hefur verið inn á. Þetta þýðir að orkureikningar þeirra sem búa við fjarvarmaveitur og rafmagnskyndingu í þéttbýli munu hækka á móti því að orkureikningar þeirra sem eru í dreifbýli, dreifingarkostnaður raforku, mun lækka.

Var það vegferðin í þessu máli að við þyrftum þá næst að glíma við það að reyna að koma til móts við hærri raforkureikninga hjá íbúum í þéttbýli? Vorum við ekki að reyna að ná þessu niður með jöfnuði en ekki að þetta færi á annan ás og menn þyrftu að halda áfram að reyna að finna út úr því? Sú tillaga sem við lögðum fram við 2. umr., ég og hv. þm. Kristján L. Möller, mætti þeim sjónarmiðum sem eiga fullan rétt á sér að stórnotendur taki þátt í samfélagslegri ábyrgð með því að raforkuskatturinn hefði verið framlengdur; sem átti að renna út á stórnotendur í lok þessa árs, og nemur um 2,2 milljörðum kr. í dag. Hægt hefði verið að lækka þann skatt á stórnotendur, helminga hann, og það hefði dugað til að jafna dreifingu á raforku um landið, og ekki bara það heldur líka að jafna niðurgreiðslu á húshitun. Við hefðum gengið alla leið í þessu verkefni sem Alþingi hefur nú verið að glíma við allt of lengi, liggur við jafn lengi og elstu menn muna. Þó að undirtektir þingmanna úr öllum flokkum hafi verið jákvæðar í gegnum tíðina, um að jafna orkukostnað landsmanna, þá hefur það því miður tekið allt of langan tíma og við sjáum ekki í land enn með þá hluti. Þarna hefði verið komið sjálfbært kerfi í innbyrðisjöfnun orkuverðs á milli landshluta sem er mikill munur.

Meiri hlutinn talar í nefndaráliti sínu um þetta mál, að leggja eigi fram þingsályktunartillögu á þessu ári eða því næsta um að móta stefnu í því hvernig jafna eigi niðurgreiðslu varðandi húshitun. Það er bara loforð inn í framtíðina og við vitum ekkert hvernig það kemur til með að gera sig varðandi fjárlögin og baráttuna um skiptingu innbyrðis í fjárlögum, hvernig gengur að ná einhverjum fjármunum í það verkefni. Þó að það sé virðingarvert að fara að vinna að stefnumótun í því, og leggja fram þingsályktunartillögu af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra í þeim efnum, þá er ekkert í hendi hvernig gengur að fjármagna slíka tillögu þegar hún liggur fyrir. Þarna hefðum við því svo auðveldlega getað gert þetta á einu bretti án þess að stóriðjan hefði þurft að kveinka sér undan því; að lækka raforkuskatt á stóriðjuna um helming, en samt hefði þetta dugað til.

Ég held að mikil gagnrýni eigi eftir að heyrast víða þegar almenningur í landinu áttar sig á hvað þetta þýðir. Þá þarf stjórnarmeirihlutinn að svara fyrir það og hvað réttlæti það að menn fari þessa leið þegar önnur leið er í boði.

Talað er um að meðaltal orkureikninga heimila í landinu sé um 185 þús. kr. hér á höfuðborgarsvæðinu og 330 þús. kr. á landsbyggðinni. Það er auðvitað bara meðaltal. Ég hef séð reikninga allt upp í — þetta er á ársgrundvelli — hálfa milljón á þeim stöðum úti á landi sem búa við mikinn húshitunar- og rafmagnskostnað. Þar sem ég held tvö heimili er kannski allt í lagi að ég deili því með þjóðinni að hér á höfuðborgarsvæðinu borga ég rúmar 100 þús. kr. á ári í orkukostnað á heimili mínu en þar sem ég bý úti á landi, á Vestfjörðum, greiði ég um 400 þús. kr. Ég er komin í hálfa milljón og er ekkert að vorkenna mér með það, svona er þetta bara. Maður finnur þetta á eigin skinni og það er mikill ójöfnuður sem þarna er á ferðinni milli íbúa landshluta og svæða.

Nú eru kjarasamningar opnir á almenna markaðnum. Það eitt að geta komið til móts við almenning í þessum efnum, með lækkun orkuverðs, með því að ganga alla leið varðandi jöfnun húshitunarkostnaðar, væri gífurleg kjarabót. Mundi ég nú telja, af því að ríkisstjórnin horfir til þess með hvaða hætti ríkisvaldið kemur að kjarasamningum, að þetta væri eitt af því sem ríkisvaldið ætti að geta gert, að beita sér fyrir því að orkukostnaður á milli landsmanna yrði að fullu jafnaður svo að þessi mikli ójöfnuður væri ekki eins og hann er í dag. Ég hugsa að það gæti jafnvel orðið meiri kjarabót en kæmi út úr kjarasamningum þegar upp væri staðið.

Á sínum tíma, þegar margir landshlutar fengu lágvöruverslun í sitt nærumhverfi, var sagt að það hefði verið á við niðurstöður margra kjarasamninga að fá þá uppbót sem því fylgdi. En svona er þetta nú bara, menn eru staddir hér, leggja ekki í að hrófla neitt við stóriðjunni eða stórnotendum, það virðist einhvern veginn vera þannig að það sé algjörlega heilagt vé og ekki megi krefjast þess að þeir stóru notendur leggi eitthvað til samfélagslegra þátta, svo virðist sem þeim sé alltaf hlíft. Ég held að það sé nauðsynlegt að almenningur í landinu fái það beint í æð að menn eru að gera það með því að ganga ekki lengra en fram kemur í frumvarpinu.

Frumvarpið er vissulega skref í rétta átt en hefði getað orðið miklu öflugra hefði meiri hlutinn gengið alla leið og samþykkt þá breytingartillögu sem ég og hv. þm. Kristján L. Möller lögðum fram við 2. umr. í málinu. En svona liggur þetta og svo virðist vera að við þurfum að halda áfram að berjast fyrir jöfnun orkuverðs af því að það er langt frá því að vera komið í land.