144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

landmælingar og grunnkortagerð.

560. mál
[14:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það bæti lífsskilyrði barna okkar í framtíðinni ef hægt er að taka skynsamlegar ákvarðanir um nýtingu landsins sem þau munu erfa á grundvelli nákvæmra upplýsinga. Borið hefur við að það hafi algerlega staðið á mörkunum. Hins vegar skil ég vel áhyggjur hv. þingmanns. Hann er öðrum þræði að velta því fyrir sér hvort með þessu sé verið að taka einhvern bita af einkamarkaði og það er vel hægt að færa rök að því.

Í reynd kemur fram að þegar gjaldfrelsi var sett á einhvern tíma í fyrra, menn hættu að rukka fyrir þessar upplýsingar, þá jókst ásóknin gríðarlega. Það er hugsanlegt að fram að þeim tíma hafi menn aflað sér sömu upplýsinga beinlínis á markað með því að greiða fyrir þær. Í sjálfu sér gæti það með einhverjum hætti veikt einhver fyrirtæki sem hafa selt slíka þjónustu.

Þá ber á hinn bóginn að líta á það að frumvarpið finnst mér akkúrat bera í sér vísi að frjóu samstarfi einkamarkaðar og hins opinbera. Það felst í eftirfarandi: Landmælingar og hið opinbera á ekki að framleiða gögnin. Það á að kaupa gögn af þeim sem framleiða þau á einkamarkaði. Þannig skil ég frumvarpið. Ég mundi telja sökum þess skorts sem er á stafrænum gögnum um landupplýsingar í hárri upplausn að þetta kallaði á — kannski ekki á þessu ári, ég sé hvernig búið er um það í frumvarpinu — að hið opinbera færi skipulega að byggja upp slíka gagnagrunna. Við vitum um stór verkefni sem ekki hefur tekist að vinna einmitt vegna skorts á þeim og við höfum jafnvel ekki getað staðið undir alþjóðlegum skuldbindingum vegna skorts á þeim. Með skipulagðri vinnu í krafti þessa frumvarps er hægt að ráða bót á því og skapa um leið verkefni fyrir einkamarkaðinn. Þannig skil ég þetta.