144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

landmælingar og grunnkortagerð.

560. mál
[14:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu sem var mjög upplýsandi. Þó að ég hafi kynnst mörgum hliðum á hv. þingmanni þá upplýsti hann núna að hann er eitthvað sem ég vissi ekki að hann væri, hann er næringarfræðingur líka, fór yfir það í þingræðu, (Gripið fram í.) það er auðvitað þakkarvert. Og hárrétt líka hjá hv. þingmanni að hann hefur alltaf orðið fyrir fullkomnu vanþakklæti þegar hann reynir að vísa mér hinn pólitíska veg og ég hef trú á að það verði eitthvað þannig áfram.

Það er hins vegar áhugavert að við erum loksins búin að finna gagnsæi hjá síðustu ríkisstjórn, og það var í þessu máli. Ég þykist þó eitthvað kannast við þessa hugmynd frá því að ég var formaður hv. umhverfisnefndar. Hún var komin, ef ég man rétt, frá Bandaríkjunum, þ.e. hugmyndin um að hafa aðgang að slíkum grunnupplýsingum ókeypis, og við erum í sjálfu sér ekki að deila um það, en þetta snýst samt í rauninni að sjálfsögðu um það. Það verður auðvitað að skoða kostnaðinn í sambandi við ný kort og líka það; hvað á að vera ókeypis? Ég hef verið viðskiptavinur eða átt viðskipti við Landmælingar Íslands, sem er eftir því er ég best veit prýðisstofnun, en þetta snýst ekkert um það. Þetta snýst um forgangsröðun og hvað við viljum nýta skattpeningana í. Þar var ókeypis aðgangur að viðkomandi korti en ef ég man rétt, af því að þetta stækkaði í framsetningu, þá þurfti maður að borga eitthvað fyrir það. Ekki er hægt að ætlast til þess að hið opinbera láti alla fá upplýsingar á því formi sem þeir bara vilja, það væri fráleitt, að minnsta kosti þykir mér það.

Ég verð að vísu að viðurkenna að þessi Afríkuvinkill, ég held að hv. þingmaður þurfi að fara betur í það. En kannski er lausnin í þessu sú, og við bara sameinumst um það, að Landmælingar Íslands verði framlag okkar til þróunaraðstoðar í Afríku. Ef ég skil hv. þingmann rétt hefur vandi Afríku falist í því að eina slíka stofnun vantaði þar.