144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

auknar rannsóknarheimildir lögreglu.

[15:32]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að gefa mér að ég og hv. þingmaður deilum þeirri skoðun að alltaf þurfi að hafa varann á þegar kemur að því að fylgjast með borgurunum af hálfu ríkisvaldsins eða annars opinbers valds. Það eru grundvallarprinsipp sem ég held að ég og hv. þingmaður deilum. Hins vegar verður að segjast alveg eins og er að ef við lítum blákalt á stöðuna og það mat sem lögreglan hefur lagt fram væri beinlínis óábyrgt af stjórnvöldum að gefa því ekki gaum að það geti þurft að rýmka þessar heimildir lögreglu. Þó verður að minna á það, því að umræða um þessi mál fer oft út um víðan völl, að hér er ekki verið að tala um það að gefa einhverja opna heimild til að fylgjast með borgurunum. Nei, það mun alltaf þurfa úrskurð þar til bærra yfirvalda, dómsvaldsins í flestum tilvikum, um heimild til slíks eftirlits.

Það þarf ekki að rifja það upp fyrir hv. þingmönnum að á undanförnum árum hafa verið mörg hundruð tilvik um símhleranir til að mynda í hinum ýmsu málum, ekki hvað síst á undanförnum árum í málum sem tengjast bankahruninu.

Það má heita augljóst að það geti verið tilefni til að beita slíkum aðferðum þegar verið er að koma í veg fyrir hryðjuverk, enda hefur það sýnt sig í Bandaríkjunum og fjölmörgum Evrópulöndum, meðal annars á Norðurlöndunum, að slíkar heimildir lögreglu voru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir. Hefðu þær ekki verið til staðar hefðu hryðjuverk í þessum löndum nánast óumdeilanlega verið fleiri en raunin varð. Það væri því mjög óábyrgt af stjórnvöldum að bregðast ekki við þessum ábendingum lögreglunnar.