144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

ljósleiðarar.

520. mál
[17:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það voru meiri tíðindi í ræðu hv. þm. Páls H. Pálssonar en hæstv. ráðherra. Hann lýsti því skýrt yfir að von væri á tillögum sem skilgreindu aðgang að ljósleiðara sem part af grunnþjónustu sem allir eiga að búa við, líka þeir 13 þúsund manns sem í dag búa ekki við slíka viðunandi þjónustu. Ræða hæstv. ráðherra var á annan veg. Línan frá ráðuneytinu virðist vera þannig að ef um er að ræða valkvæða framkvæmd sem markaðurinn getur ekki séð um, þá er verkið ekki styrkhæft. Þannig skildi ég ræðu hæstv. ráðherra.

Í tilviki Þingeyjarsveitar, sem hv. þm. Kristján L. Möller færði hér inn í umræðuna, er framsækið sveitarfélag sem vill fá ljósleiðara en ekkert fyrirtæki er tilbúið til að leggja hann og reka. Þá hyggst sveitarfélagið ráðast í verkið sjálft en þar með er það í reynd búið að dæma sig út fyrir reglurnar og hefur enga tryggingu fyrir því að það komist inn í sjóðakerfið og fái síðar, þegar reglur liggja fyrir, greitt eitthvað upp í kostnaðinn.