144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

ljósleiðarar.

520. mál
[17:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra og þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu alveg sérstaklega fyrir að hafa tekið undir þakklæti til hv. þm. Páls J. Pálssonar um upplýsingar sem starfshópurinn er að skila af sér 5. mars nk.; byltingarkenndar tillögur um grunnþjónustuna og 13 þús. manns sem eru utan við hana og að þetta sé allt búið 2020.

Virðulegi forseti. Það er akkúrat þetta sem er að rugla sveitarfélögin í dag. Fjárveiting, 300 millj. kr. í ár, og yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra um ljósleiðaravæðingu Íslands gerðu að verkum að sveitarfélög, sum sem eru búin, spyrja sig þeirrar spurningar sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon setti fram áðan. Hitt er alvarlegra, eins og ég gerði að umtalsefni, með Þingeyjarsveit, sem er að fara af stað, var að undirbúa sig en er núna að hugsa um að stoppa vegna þess að það bíður eftir skýrum reglum frá ríkisvaldinu um hvernig þetta eigi að vera. Það er akkúrat þetta sem hefur ruggað bátnum ef svo má að orði komast. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. innanríkisráðherra, sem fer með þennan málaflokk, til að móta skýrar reglur sem allra fyrst og kynna þær opinberlega fyrir sveitarfélögunum í landinu. Það hlýtur að vera þannig að í því átaki sem var boðað í áramótaræðu og öðru, fyrir þessa 13 þús. íbúa, þá verða skilaboðin til sveitarfélaganna að vera þannig: Já, þið megið fara af stað en við getum ekki lofað því nákvæmlega hvaða ár kostnaðarþátttaka ríkisins verður komin inn. En hún verður að koma vegna þess að annars er þetta atriði sem er að koma fram, og þar á meðal í skýrslu þessa starfshóps, bara til að tefja málið í raun og veru.

Það skulu vera mín lokaorð til hæstv. innanríkisráðherra að móta skýrar reglur sem allra fyrst, birta þær sveitarfélögunum og sýna þeim hver þátttaka ríkissjóðs verður í því jafnvel þó að sveitarfélög og fyrirtæki geti farið af stað fyrr og lagt í verkefnið strax vegna þess að það er svo brýnt.