144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf í allsherjar- og menntamálanefnd.

[14:21]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra er kominn á mjög undarlegt spor, verð ég að segja, í þessari umræðu, en það er áhugavert að hann brennur svo mikið fyrir málinu að hann er til í að ganga hér fram fyrir skjöldu þegar menn eru í fullri alvöru að tala um að hér séu vinnubrögð fyrir neðan allar hellur. Af hverju er það? Vegna þess að þetta er slíkt forgangsmál Sjálfstæðisflokksins að hann er til í það með óbeinum hætti að kalla Framsóknarflokkinn afturhald. Hann kallar Framsóknarflokkinn afturhald, samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn, (Gripið fram í: Ótrúlegt.) það er það sem hann er að gera. Það er meira, hann er ótrúlegt afturhald, Framsóknarflokkurinn. (Gripið fram í: Þið eruð þannig.) Já, já, af sjálfu leiðir, virðulegur forseti, af sjálfu leiðir. Við skulum þá bara taka öll þingmannamál inn í þingsal og ræða þau, en við skulum reyna að forðast vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins sem eru svo lágkúruleg að hæstv. fjármálaráðherra er til í að verja hér (Forseti hringir.) umsátur á vegum hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur þar sem hún situr um sína eigin aðalmenn í nefndinni til að koma þessu mikla hugðarefni út úr nefnd sem raunar, (Forseti hringir.) eftir því sem ég best veit, er ekki meiri hluti fyrir í þingsal.