144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[14:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Að öllu jöfnu ætti maður að hrópa húrra fyrir að þetta mál sé komið svona langt en því miður eru stórir gallar á því þar sem vandinn færist bara til. Það er verið að lækka kostnað hjá dreifbýlinu en vandinn færist yfir í þéttbýlið úti á landsbyggðinni. Orkureikningar hækka mikið þar sem orkuverð er hátt fyrir eins og hjá fjarvarmaveitum.

Tillaga mín og hv. þm. Kristjáns L. Möllers var að fara í þetta með öðrum hætti, að nýta raforkuskatt sem nú er á stórfyrirtæki til helminga til að jafna að fullu dreifingu á raforku og jöfnun húshitunarkostnaðar. Það hefði verið hægt að ganga alla leið strax með því að stórnotendur tækju þátt í þessari samfélagslegu aðgerð. Hún var felld og þess vegna tel ég að við göngum alls ekki eins langt og við hefðum getað gert. Við hefðum getað gert það miklu betur og þess vegna munum við Vinstri græn sitja hjá í þessu máli og vona að menn (Forseti hringir.) nái einhverjum áttum í þessu öllu saman.