144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:43]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Vandinn sem við stöndum frammi fyrir kristallaðist ágætlega í svari hv. þingmanns og í raun er pólitísk staða valdsins enn þá snúnari en fram kom í svarinu, þ.e. að sameiginlega EES-nefndin hefur ekki fjallað um málið en samt er verið að leggja til að þetta sé tekið inn í íslenskan rétt án þess að um það hafi verið fjallað sérstaklega á vettvangi þingsins eins og gildir að jafnaði um slíkar gerðir. Hér í þinginu hefur einmitt verið innleitt það verklag að þingið kemur að málum á fyrri stigum þegar enn þá er opið fyrir athugasemdir og aðkomu þingsins. En hér er sú leið ekki farin heldur er það í raun fjármálaráðherra sjálfur sem gerir nálgunina að sinni.

Það vekur mig til mikillar umhugsunar og ég held að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hljóti að hafa skoðanir á nákvæmlega þessum þætti þar sem hann hefur að mörgu leyti mjög persónulega Evrópustefnu, sérstaklega að því er varðar EES-samninginn og stöðu hans.

En ég vil fylgja þessu eftir við hv. þingmann og spyrja: Samræmist þetta tiltekna þingmál, uppleggið og framsetningin af hendi hæstv. fjármálaráðherra, Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar — af því að maður er stundum svolítið á reiki með það hvaða stefna er eiginlega ofan á í þessari ríkisstjórn — þ.e. þeirri stefnu sem lögð var fram af hæstv. utanríkisráðherra og fól í sér mun krítískari aðkomu að EES-samningnum, öflugri aðkomu að efnislegum þáttum áður en kemur að innleiðingu einstakra tilskipana í íslensk lög?