144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst mikilvægt að þetta viðhorf komi fram í umræðunni. Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra sem sagði í dag að það væri nokkurs virði að klára þetta frumvarp meðal annars til að geta komið fram þeim möguleikum sem felast í ákvæðum um eiginfjárauka, en hitt er alveg klárt að hér munu menn slást um starfskjörin breytilegu, þ.e. bónusana. Við sáum alveg hvernig það var hér á síðasta ári. Umræðan hefur öll verið þannig. Það getur vel verið að hægt sé að feta svona stíg í upphafi máls sem hv. þingmaður er að leggja til, hugsanlega næðist sátt um það og síðan gætu menn í ljósi reynslunnar, eins og ég skaut hér að hæstv. fjármálaráðherra áðan þegar þetta kerfi er búið að vera í gildi í 30 ár og ekkert hefur gerst, skoðað þetta aftur. Mér finnst þetta mikilvægar hugmyndir.