144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Mig langaði að koma aðeins inn á bónusana sem eru í frumvarpinu kallaðir breytileg starfskjör. Bent er á að minni fjármálafyrirtæki séu útsettari fyrir sveiflum í rekstri og því geti hentað þeim betur að hafa lakari starfskjör fyrir starfsmenn sína en geti svo hækkað þau þegar hagnaðurinn verður meiri. Mér finnst á einhvern hátt felast í því að í rauninni sé það ekki frammistaða starfsmannanna sem skapi þau starfskjör heldur séu það ytri áhrif sem komi þar fram og valdi því að stundum gangi vel og stundum illa.

Þá veltir maður fyrir sér að ef þetta er í raun og veru málið, sem ég held að sé þannig að hluta til, en svo er það líka þannig að áhættusækni skapar meiri arð þó að það sé skammlífari arður, hvort þetta ætti þá ekki að eiga við almennt alla starfsemi. Er þetta í anda þeirrar launastefnu sem við mundum vilja reka, að almennt væru launakjör slöpp en svo þegar vel áraði þá væri tímabundið hægt að hækka launin? Er þetta fyrirkomulag sem launafólk í bönkum á að sætta sig við umfram aðra eða hver er skoðun þingmannsins á því?