144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:38]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið og spurninguna. Ég er alveg sannfærð um að þeir geta verið skaðlegir. Það lítur út fyrir í frumvarpinu að verið sé að reyna að hindra áhættusækni eins og hægt er en þó er verið að víkka út þessa bónusa og ég heyrði að þingmaðurinn vildi að við einbeittum okkur frekar að því að breyta fjármálakerfinu.

Nú erum við örugglega bæði sammála um að bankastarfsemi er mjög mikilvæg og miðlar fé um hagkerfið og samfélagið þannig að einn lánar af öðrum, og einn sparar með því að lána öðrum og það er mikilvægt, en ég tel að svona bónusar geti einmitt ýtt undir skapandi hugsun varðandi fjármálaafurðir. Fjármálaafurðir geta verið mjög hættulegar því að markmiðið er fyrst og fremst að skapa arð fyrir einhvern án þess að verið sé að skapa raunveruleg verðmæti. Það er því tímabundinn skammvinnur arður sem einn hlýtur og aðrir borga síðan með einum eða öðrum hætti, hvort sem það er í gegnum hrun fjármálakerfisins eða ofurhá þjónustugjöld.