144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:42]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að margt í þessu frumvarpi sé engu að síður ágætt. Eitt og annað er til bóta en það eru þessir þættir sem eru kannski helst að angra okkur og mig. Mér finnst greinargerðin bera saman hvernig þetta er á Norðurlöndunum og hvað segir í tilskipun Evrópusambandsins um þetta en mér finnst vanta hinn efnislega rökstuðning fyrir því hvers vegna eðlilegt sé að innri endurskoðun og aðrir slíkir eftirlitsaðilar, regluverðir og áhættustýring, séu undir þessu bónuskerfi. Ég held að það skipti máli þegar menn fara að vinna með málið í nefndinni að tekið verði á því.

Skoðum aðeins líka samkeppnisstöðu íslenskra fjármálafyrirtækja í stóra samhenginu. Ef ég væri fjármálaráðherra hefði ég meiri áhyggjur af þeirri staðreynd að við værum með íslensku krónuna (Forseti hringir.) í gjaldeyrishöftum en hvort kaupaukakerfi sé til staðar eða ekki.