144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta yrði kannski innlegg bankanna í kjarasamningaviðræður, það skipti miklu máli fyrir neytendur í landinu ef eitthvert slíkt kaupaukakerfi væri með þeim formerkjum að neytendur mundu njóta góðs af. Þá væri það kaup kaups og allir mundu græða, mundi ég ætla.

Mig langar aðeins að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart félagslega ábyrgum bönkum. Ég minntist á norrænu bankana sem fengu verðlaun árið 2010 fyrir að hafa verið með framtíðarsýn varðandi sjálfbærni og fyrir að fjárfesta í sjálfbærum verkefnum. Þeir samræmdu þannig hefðbundna bankastarfsemi samfélagslegri og félagslegri ábyrgð sem mér finnst því miður oft skorta í okkar bankakerfi. Sér (Forseti hringir.) þingmaðurinn fram á það að núverandi bankar taki slíka stefnu upp eða hvort við þurfum bara nýjan (Forseti hringir.) banka sem hefur þetta að leiðarljósi?