144. löggjafarþing — 77. fundur,  4. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[17:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram kemur hjá þingmanninum skiptir öllu máli hverjir og hvernig. Það er fráleitt að vera með bónuskerfi á markaði þar sem hlutabréf hafa þá náttúru að þau hækka á einum tíma og lækka á öðrum tíma, að mönnum séu greiddir miklir bónusar þegar þau hækka en síðan hafi það engin áhrif þegar þau lækka.

Hitt getur svo verið jákvætt, að starfsmenn sannfæri sem flesta viðskiptavini um að hefja séreignarsparnað og fái greiddan bónus eftir því sem þeir sannfæri fleiri viðskiptavini um mikilvægi þess að þeir leggi fyrir á séreignarsparnaðarreikning. Það er í langflestum tilfellum jákvætt að fólk leggi til hliðar aukalífeyrissparnað til að mæta ýmsu síðar á lífsleiðinni. Það getur út af fyrir sig verið jákvætt að það sé einhvers konar hvatakerfi sem styður við slíka háttsemi. Þess vegna held ég að það skipti öllu máli hverjir og hvernig (Forseti hringir.) þegar bónusar eru annars vegar og að þeir séu hóflegir.