144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

upplýsinga- og tjáningarfrelsi.

[10:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langaði að eiga orðastað við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, m.a. út af nýlegri tilraun til að setja lögbann á Kastljós, og í því ljósi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig gangi að koma í gang vinnunni sem lýtur að þingsályktun um að Ísland taki sér afgerandi sérstöðu varðandi upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Eins og allir ættu að vita er sá málaflokkur í ráðuneyti hæstv. ráðherra. Ef sú vinna sem liggur fyrir að þurfi að gera hefði verið búin hefði verið búið að fyrirbyggja að hægt væri að fara fram á lögbann af þessu tagi. Í ályktun IMMI stendur meðal annars um fyrirbyggt lögbann á útgáfu:

Hömlur á tjáningarfrelsi er sérhver lagaleg aðgerð sem hægt er að nota til að hindra að efni sé gefið út áður en til útgáfu kemur. Slíkar hindranir hafa afar slæm áhrif á tjáningarfrelsi. Í flestum lýðræðisríkjum eru sterk og jafnvel algild takmörk á þeim. Kanna þarf hvernig tryggja megi að lög verði ekki misnotuð í tilraunum til þöggunar sem takmarka og tálma tjáningarfrelsið sem tryggt er í stjórnarskránni.

Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort vinna sé hafin. Ef ekki, hvenær? Og hvenær hyggst ráðherra gefa Alþingi skýrslu um gang mála? Í ályktuninni sem var samþykkt á síðasta kjörtímabili stendur:

„Mennta- og menningarmálaráðherra upplýsi Alþingi um framfylgd verkefna innan Stjórnarráðsins samkvæmt 1.–4. mgr. á þriggja mánaða fresti frá samþykkt ályktunarinnar.“

Því langar mig að fá einhvers konar tímaramma um hvenær eigi að hrinda þessu í framkvæmd.