144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

efling veikra byggða.

[11:33]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu, ég gleymdi því áðan. Við þurfum langtímaáætlun í byggðamálum eins og Sóknaráætlun 20/20 miðaði að. Í mínum huga er ekki vafi á að það er mikið réttlætismál að við styðjum við fólk sem býr í byggðum sem nú standa höllum fæti vegna fólksfækkunar og færri atvinnutækifæra. Hefur það gefist vel að færa byggðakvóta til veikburða byggða? Hefur það verið góð aðferð til að skjóta styrkum og varanlegum stoðum undir atvinnu þar? Ég held ekki. Mér sýnist ýmsir vera á sama máli um það og vísa í því sambandi til Stöðugreiningar 2013 sem Byggðastofnun lét gera. Þar kemur m.a. fram að þau verkfæri sem til staðar eru eins og byggðakvóti, lánveitingar af hálfu Byggðastofnunar ásamt fjölþættum stuðningi ýmissa aðila gegnum tíðina hafa ekki megnað að stöðva þessa þróun, hvað þá að snúa henni við.

Byggðakvóti og byggðatengingar aflaheimilda til að styðja við byggðir sem standa höllum fæti þarf að meta í ljósi þess hver reynslan og árangurinn af slíkum aðgerðum hefur verið. Ef við notum byggðatengingar og byggðakvóta til að leysa byggðamál þarf að vera alveg öruggt að þær aðferðir dugi til að breyta miklu um stöðu byggða og fólks sem þar býr til langs tíma. Hefur verið sýnt fram á það? Ég held ekki.

Er ekki skynsamlegra að hámarka arð fiskveiðanna og nýta svo hluta af honum til að byggja upp fleiri atvinnutækifæri í byggðum sem standa veikt til að þær geti orðið sjálfbærar í atvinnulegu tilliti til langs tíma litið þannig að þær þyki eftirsóknarverðar til búsetu fyrir unga jafnt sem aldna? Við verðum að finna nýjar leiðir en ekki hjakka í sama farinu sem hefur ekki skilað árangri hingað til og við verðum líka að horfa til þess að tækniþróun innan fiskveiða og fiskvinnslu hefur orðið gríðarleg þannig að það eru alltaf færri og færri hendur sem þurfa að vinna þessi störf. Ég held að við ættum að nýta arðinn til að láta þessar byggðir hafa peninga til að byggja upp til framtíðaratvinnu sem hentar nútímasamfélagi. Við erum með takmarkaða auðlind þar sem fiskurinn er.