144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[13:02]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu vangaveltur. Mig langar aðeins að inna hv. þingmann eftir því hvort honum finnist það vera raunhæfur möguleiki að aflétta ríkisábyrgðum af kerfislega mikilvægum bönkum. Er ekki innifalið í því hugtaki að þeir séu kerfislega mikilvægir að þeir fái aldrei að falla án þess að ríkið skakkist í leikinni og ákveði að bjarga innstæðuhöfum. Er þá ekki bara fullt tilefni til að lýsa því yfir að ríkisábyrgð sé á innstæðum þessara banka og innheimta það gjald sem skal greiða fyrir slíkar ríkisábyrgðir samkvæmt lögum um ríkisábyrgðir.

Í lögum stendur að hver banki eða hver sú stofnun sem nýtur ríkisábyrgðar skuli greiða ríkisábyrgðargjald sem skuli vera allt frá 0,25%–4% af þeirri ábyrgð sem veitt er. Mér reiknast til að þetta gæti á síðustu árum hafa verið hátt í 20 milljarðar sem ríkið hefði átt að fá í tekjur af því að veita slíkar ábyrgðir. (Gripið fram í.) — 20 milljarðar? Hátt í 20 milljarðar ef við gerum ráð fyrir að þær innstæður sem þyrfti að tryggja væru 500 milljarðar, hjá þessum þremur stóru bönkum. Þá er ég ekki að tala um sparifé almennt eða bundnar innstæður heldur lausar innstæður sem mega aldrei hætta að vera okkur aðgengilegar vegna þess að þær eru lögeyrir okkar í landinu og án þeirra mundi hagkerfið stoppa. Þess vegna mun ríkið aldrei eiga neinn valkost annan en að tryggja þessar innstæður.

Hvað finnst hv. þingmanni? Er kannski ekki bara best að opna augun og sjá hvernig þetta lítur út í raun og veru og láta þá banka sem njóta þessarar ábyrgðar greiða það gjald sem því fylgir?