144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[13:36]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég hef heyrt rétt þá skildist mér að það ætti að leggja á 4% ríkisábyrgðargjald á innstæður, 20 milljarða. Ef þetta er ríkisábyrgðargjald vegna þessara innstæðna þá er það ekki til almennra þarfa. Er þingmaðurinn ekki að grauta saman almennri tekjuöflun ríkissjóðs og tryggingaiðgjaldi sem rennur þá í bótasjóð? Eins og hann talaði þarna er þetta hrein tekjuöflun fyrir ríkissjóð. En 4% ríkisábyrgðargjald á lausar innstæður er gjörsamlega út í bláinn. Það hlýtur þá að tryggja lausar innstæður og lausar innstæður eru með um það bil 0,25% vöxtum. Ég held að hv. þm. Frosti Sigurjónsson fari algerlega með himinskautum í þessu og muni hér rústa heilt bankakerfi. Ég vona bara að ég hafi heyrt einhverjar draumfarir þingmannsins en ekki alvörutal. Ég hef lokið máli mínu að sinni.