144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[13:41]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef tekið eftir því að hv. þingmaður hefur áskilið sér rétt til þess að ákveða öðrum þingmönnum hvað þeir mega fjalla um í sínum ræðum, (Gripið fram í: Þér og Ögmundi.) sérstaklega mér og hv. Ögmundi Jónassyni sem hefur orðið fyrir barðinu á þessari ritskoðunaráráttu hv. þingmanns og takmörkun á málfrelsi í ræðustól sem ég held að sé ekki viðeigandi. Ég bið hv. þingmann að gæta sín í þessu og leggja þetta ekki í vana sinn.

Eins og kom fram í fyrri hluta ræðu minnar sem hann missti gjörsamlega af, hann hafði greinilega ekki hlustað á, (VilB: Ég hlustaði á hana annars staðar.) þá fjallaði ég einmitt um efni frumvarpsins sem var hér til umræðu. (VilB: Ég hlustaði á ræðu …)(Forseti hringir.) Fyrirgefðu, get ég fengið …

(Forseti (SJS): Ekki samtal.)

Get ég fengið að ljúka máli mínu? Þar hafði ég farið vandlega orðum um efni sjálfs frumvarpsins og er alveg sammála hv. þingmanni um að það sé gott og tímabært að taka það til afgreiðslu hér á þingi.

Að öðru sem þingmaðurinn vék þá erum við bara einfaldlega ósammála, það er allt í lagi. Ég er tilbúinn að færa frekari rök fyrir máli mínu og styðja það betur rökum, ef þörf krefur, ef hann skilur ekki að það er óhjákvæmileg ríkisábyrgð á innstæðum í þessum þremur stóru bönkum. Alveg sama hvað ríkið segir eða segir ekki núna um það hvort slík ábyrgð sé á innstæðum þá er hún óhjákvæmileg. Þess vegna finnst mér óhjákvæmilegt að fyrir það sé greitt gjald.