144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[13:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Haraldi Einarssyni fyrir spurninguna. Þetta er afskaplega mikilvæg spurning og góð. Staðan er þannig í því lífeyrissjóðakerfi sem við höfum að við höfum búið þannig um hnútana að öll fyrirtæki, lítil og stór, greiða starfsfólki laun og af launum eru greidd iðgjöld í lífeyrissjóði. Meira en 90% af öllum starfsmönnum í landinu, eða meira en 80% af öllum starfsmönnum í landinu vinna hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, svo að ég fari alveg rétt með. Hins vegar höfum við búið þannig um hnútana í fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða að þeir mega aðeins fjárfesta í ríkisskuldabréfum og skráðum verðbréfum sem á bara við um allra stærstu félögin, sem er vandamál í kerfinu í sjálfu sér. Við notum lífeyrissjóðakerfið, fjármögnum það með því að taka fé út úr öllum fyrirtækjum, litlum og stórum, en það má aðeins endurfjárfesta það inn í þann enda efnahagslífsins sem getur vaxið hægast, þ.e. allra stærstu fyrirtækin, og ríkissjóð sem að sjálfsögðu er umdeilanlegt hversu mikið ætti að fjárfesta í yfir höfuð.

Nú sýna allar rannsóknir að það eru lítil og meðalstór fyrirtæki sem geta vaxið hraðast, skapað flest störf, búið til mestan hagvöxt og líka mesta ávöxtun fyrir lífeyrissjóðina. Það er þess vegna ákaflega sérkennilegt að við högum sparnaði okkar, þjóðhagssparnaði, þannig hann megi alls ekki fara í þann hluta hagkerfisins sem getur vaxið hraðast og skapað mest verðmæti. Ef við ætluðum að draga úr hagvexti og skapa sem minnst verðmæti til framtíðar mundum við einmitt gera þetta, taka peninga úr litlum og meðalstórum fyrirtækjum og setja í ríkissjóð eða í stór fyrirtæki sem geta vaxið minnst.

Þetta er ekki aukaatriði vegna þess að lífeyrissjóðir fara með 3.000 milljarða af sparnaði þjóðarbúsins og það sem þeir gera eða gera ekki skiptir máli fyrir hagvöxtinn. Ég held að það sé rétt munað að vel yfir 100 milljarðar bætist við á hverju ári og það er nauðsynlegt fyrir (Forseti hringir.) lífeyrissjóði að fjárfesta þá fjármuni ekki aðeins í stórum fyrirtækjum heldur líka í litlum og meðalstórum vaxtarfyrirtækjum.