144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsályktana.

[15:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að stærri ákvarðanir en aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu hafi verið teknar í þessum ágæta sal á síðustu árum. Ég minni á ákvörðun sem laut að því að bera þá umsókn undir þjóðaratkvæði, sú tillaga var felld hér í salnum. Við værum kannski ekki á þessum stað í dag í þessari umræðu ef á hana hefði verið fallist. Önnur stærri ákvörðun sem var tekin og varðaði miklu meiri hagsmuni í rauninni laut að þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samningana 2010. Sú tillaga var líka felld þannig að við tökum oft og einatt stórar ákvarðanir.

Varðandi þá spurningu sem hv. þingmaður ber fram til mín, hvaða augum ég líti á þingsályktanir og hvernig ráðherra beri að vinna að þeim og nefnir sem dæmi þingsályktun um staðgöngumæðrun, þá er ég að láta vinna það mál. Ég geri ráð fyrir að leggja það fram innan tíðar á grundvelli þeirrar ályktunar sem Alþingi samþykkti. Ef ég hefði verið á annarri skoðun hefði ég gert þinginu grein fyrir því. Ég vænti þess að utanríkisráðherra muni gera grein fyrir sinni skoðun í því efni sem hér er til umræðu á morgun við þá umræðu sem þar verður hafin. Þar liggur kjarni málsins, það er eðlilegt að menn geri grein fyrir stöðu sinni til þeirra ályktana sem þingið hefur samþykkt (Gripið fram í.) og hvernig eftir því verður unnið.

Í ljósi þess sem hefur komið fram í umræðunni vil ég benda hv. þingmanni á að það er enginn þingmeirihluti fyrir því að framfylgja þeim skilmálum sem í þeirri þingsályktun eru tilteknir og hér er til umræðu. Það er enginn meiri hluti á þinginu fyrir því. (KaJúl: Láttu þá þingið svara …)