144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[16:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það gleður mig alltaf þegar menn vilja tala um lýðræðislegt umboð. Það hryggir mig hins vegar í þessu tilfelli vegna þess að ef við ætlum að tala um lýðræðislegt umboð þá skulum við kannski muna eftir loforðunum fyrir kosningar, sem voru … Virðulegi forseti. Tíminn er eitthvað knappur hjá mér.

(Forseti (KLM): Þingmaðurinn má bara halda áfram því forseti hefur mælingu hérna hvenær ræðan hófst.)

Loforðin fyrir kosningar frá bæði Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum voru þess eðlis að þeir lofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Þeir hafa ekki lýðræðislegt umboð út frá kosningaloforðum. Þeir þora ekki í þjóðina, þeir hafa ekki lýðræðislegt umboð frá þjóðinni sjálfri og þora ekki í hana þrátt fyrir að hafa lofað að spyrja hana. Þeir sniðganga núna Alþingi, hunsa 53.555 undirskriftir sem söfnuðust í fyrra út af sama máli og hunsa síðan stærstu mótmæli síðan frá hruni.

Ef hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ætlar að nota lýðræðislegt umboð til þess að styrkja mál sitt er lausnin við þeim vanda hans mjög einföld, þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég segi fyrir mig: Ég sakna þessarar tillögu nákvæmlega ekki neitt og langar ekki til þess að ræða hana hér. Ég vil ræða hana þarna úti, í samfélaginu, hjá þjóðinni þar sem hún á heima.

Vel á minnst, talandi um vantraust. Hvers vegna eigum við að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórnina, af hverju lýsir ekki ríkisstjórnin bara vantrausti á (Forseti hringir.) Alþingi?