144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða þingsins og viðhorf ríkisstjórnarinnar.

[16:21]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég er verulega hugsi eftir þá umræðu sem var hér áðan í fyrirspurnatíma vegna þess að ég var eiginlega að vona að einhverjir hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar skildu út á hvað stjórnskipan Íslands gengur eða hefðu að minnsta kosti í sér þá auðmýkt að fara að þeirri stjórnskipunarvenju.

Það er ekki þannig, virðulegi forseti, að framkvæmdarvaldið hafi sjálfstæðan vilja eða sjálfstætt vald, það er ekki þannig á Íslandi. Framkvæmdarvaldið gerir það aðeins sem Alþingi hefur falið því í formi laga eða þingsályktana, þannig er það. Ekki nóg með það að þessi ríkisstjórn búi yfir sérlega vondri pólitík og sérlega vondu innihaldi, heldur erum við með sögulegt fúsk, virðulegi forseti, sögulegan klaufaskap og sögulegt virðingarleysi fyrir lýðræðinu. Það er langt verk fyrir höndum ef ríkisstjórnin ætlar að hysja upp um sig buxurnar og verði ekki þannig að hennar verði minnst sérstaklega fyrir það (Forseti hringir.) að vera fúsk.