144. löggjafarþing — 79. fundur,  16. mars 2015.

staða Alþingis, yfirlýsing forseta og umræða um hana, skv. 61. gr. þingskapa.

[17:16]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka hæstv. forseta Alþingis, Einari K. Guðfinnssyni, fyrir að efna til þessarar umræðu, gefa þinginu skýrslu og skýra sín sjónarmið þar sem meðal annars hefur komið fram að með þessu dæmalausa sendibréfi sem hæstv. utanríkisráðherra fór með sem póst til Evrópu er ekki verið að slíta viðræðum við Evrópusambandið og að til þess að slíta viðræðum þurfi nýja þingsályktunartillögu.

Það er í takt við þá niðurstöðu sem varð þegar hæstv. utanríkisráðherra taldi sig í fyrsta sinn geta slitið viðræðum með einræðistilburðum. Það var hér tekið til umræðu og meðal annars komst yfirlögfræðingur Alþingis að niðurstöðu sem ríkisstjórnin viðurkenndi með því að koma með þingsályktunartillögu um slit viðræðna. Hún varð svo ekki útkljáð vegna þess að ríkisstjórnin hafði ekki þrek til að fylgja því máli eftir. Þetta er grundvallaratriði og það ber að þakka forseta fyrir að gera það. Ég segi sem fyrsti varaforseti hans að ég er algjörlega sammála honum um að hér þarf nýja tillögu ef menn ætla að ganga þessa göngu.

Í öðru lagi verð ég að geta þess sem hér hefur komið frá hæstv. forsætisráðherra sem segir okkur að hann hafi staðið í viðræðum við Evrópusambandið eða stofnanir þess um hvernig þetta bréf ætti að vera eða hvernig ætti að taka okkur af lista yfir umsóknarþjóðir. Ég tel það aðför að þingræðinu á Íslandi að neita að ræða slíka tillögu á Alþingi og þessar hugmyndir en ræða það við fjölþjóðastofnanir og aðra úti í heimi. Það gengur ekki. Þetta er ráðabrugg gegn Alþingi sem hæstv. forsætisráðherra lýsti hér og hæstv. utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, hefur líka lýst fyrir utan það, sem er alvarlegt mál, að hann hefur í raun og veru þrjár skoðanir um hvert sé efni þessa bréfs. Þær skoðanir hafa komið fram síðustu daga og það er mjög alvarlegt mál. Ef ekki er hægt að túlka það bréf sem sent hefur verið á einn hátt heldur gert frá degi til dags sýnir það þá einræðistilburði sem koma fram í störfum hæstv. ráðherra og það mun Alþingi aldrei láta viðgangast.

Þar að auki kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra í umræðu í sjónvarpsþætti í gær að samið hefði verið um það við stjórnarmyndunarviðræðurnar að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að svíkja kosningaloforðið sem oddvitar flokksins í öllum kjördæmum gáfu fyrir kosningar og voru meðal annars kosnir út á, þar sem þeir lofuðu því að umræða um slit viðræðna yrði áður borin undir þjóðina. Það er verið að svíkja.

Virðulegi forseti. Sem einum af forsetum Alþingis finnst mér skuggalegt þegar hæstv. fjármálaráðherra segir: Hvers vegna ætti þessi ríkisstjórn að hafa ríkar skyldur um að leita til þingsins?

Ég hef farið yfir nokkur atriði sem eru þvílíkir einræðistilburðir þessa ráðherra og þessarar ríkisstjórnar og sem Alþingi mun aldrei sitja undir, aldrei. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)