144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er til of mikils ætlast að hæstv. utanríkisráðherra geti svarað málefnalegum spurningum. (Utanrrh.: Ég svaraði.) Ég spurði: Ef þetta var meiningin, ef ríkisstjórn Íslands taldi sig á þriðjudaginn var vera að taka þá ákvörðun að afturkalla umsókn að Evrópusambandinu eða slíta viðræðunum, af hverju var þá ekki bréfið orðað í samræmi við það? Af hverju þessi orðaleikur? Af hverju þessi skollaleikur? Það að segja að ríkisstjórn Íslands hafi engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju er ekki eins og að slíta þeim, nei, bara tilkynning um að þær verði ekki hafnar að nýju. Það að segja að það sé bjargföst afstaða ríkisstjórnar Íslands að Ísland skuli ekki vera umsóknarríki, er ekki það sama og að afturkalla umsóknina. Þetta er svo tært og öllum þeim sem hafa einhvern lágmarksmálþroska er ljóst að hér er feluleikur í gangi. Væntanlega gagnvart Evrópusambandinu en ætlað til heimabrúks að menn geti barið sér á brjóst og farið í sumarbústað með (Forseti hringir.) mönnum úr Hádegismóum og sagt: Við gerðum þetta. Við slitum viðræðunum. En það er ekki sagt í bréfinu. (Forseti hringir.) Það sem ég er að reyna að spyrja um, virðulegur forseti, er hvers vegna er (Forseti hringir.) þetta gert svona?