144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:22]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er enn að velta fyrir mér hvers vegna við fáum þessi þóttafullu svör frá hæstv. ráðherra og hvers vegna hann í stað þess að svara spurningum efnislega er með boxhanskana á lofti að láta menn heyra það eða reyna að snúa þá niður með einhverjum hætti af því að hann leggur ekki í hina efnislegu umræðu. Hann leggur bara ekki í hana.

Kann að vera að það sé vegna þess að hæstv. ráðherra er úti á svo hálum ís að hann ræður ekki við sína eigin stöðu? Gæti verið meira í gangi innan stjórnarflokkanna en við fáum að heyra af í fjölmiðlum og hér inni? Þá er ég að vitna til þess að til dæmis hefur hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason stigið fram og beinlínis kallað það sem hæstv. ráðherra er að gera siðrof. Það eru ekki mín orð, það eru orð hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar sem ég vitna hér til á vefmiðli Hringbrautar. Getur verið að viðbrögðin hér (Forseti hringir.) séu varnarviðbrögð gagnvart einhverju allt öðru en akkúrat okkur í minni hlutanum á Alþingi, heldur séu menn að verjast sínu fólki innan sinna eigin raða? (Forseti hringir.) Er það ástæðan fyrir því að menn leggja ekki í að koma hingað inn með þingsályktunartillögu?