144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:58]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna en vil byrja á að taka fram og leiðrétta hv. þingmann að það hefur enginn málsmetandi lögmaður komið og haldið því fram að ekki sé hægt að gera þetta með þessum hætti. Mig langar að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi hvort hann telji að Björg Thorarensen sé að fara með rangt mál þegar hún hefur tjáð sig bæði í fjölmiðlum og víðar um þessi mál. Ég vil líka segja að ríkisstjórnin situr í umboði meiri hluta þingsins og hvet hv. þingmann, ef hann hefur efasemdir um það að ríkisstjórnin sé að framfylgja vilja meiri hluta þingsins, til að koma fram með vantrauststillögu á ríkisstjórnina.

Síðan langar mig aðeins af því hv. þingmaður talaði um að skynsamlegt væri að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um málið ef halda ætti áfram. Ég held að það þurfi tvennt til til að halda aðildarviðræðum áfram við Evrópusambandið, annars vegar að það sé vilji meiri hluta þjóðarinnar og hins vegar að pólitískur vilji sé til þess að ganga í Evrópusambandið. Hvorugt þessara atriða er til staðar í dag.

Á síðasta kjörtímabili var málum hagað með þeim hætti að reynt var að ná fram pólitískum vilja hér til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það var meðal annars gert — þá var hv. þingmaður reyndar ekki formaður Samfylkingarinnar — með þeim hætti að forveri hans í formennsku í Samfylkingunni kallaði þingmenn út úr atkvæðagreiðslu, hótaði stjórnarslitum ef menn mundu styðja þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Þess vegna vil ég fagna því að núverandi formaður Samfylkingarinnar sé á annarri skoðun en forveri hans í starfi. Og síðan þegar leið á kjörtímabilið reynt var að ná fram með ýmsum hrossakaupum pólitískum stuðningi við umsóknina, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson rekur svo skemmtilega í bók sinni sem kom út fyrir þarsíðustu jól.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort (Gripið fram í: … þú varst í stjórninni.) það hafi ekki verið mistök á sínum tíma að beita því ofbeldi sem beitt var af hálfu Samfylkingarinnar (PVB: Þú varst í VG þá.) til þess að (Forseti hringir.) stöðva það að þjóðin fengi að taka afstöðu til þess hvort sótt (Forseti hringir.) yrði um aðild að Evrópusambandinu. Og eins hvort hv. þm. Árni Páll Árnason hafi tekið þátt í þeim hrossakaupum sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsir svo skemmtilega (Gripið fram í: Það var ég sem stóð …) í bók sinni.