144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða skýrslu utanríkisráðherra en ef hv. þingmenn Framsóknarflokksins vilja að ég geri grein fyrir afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í málefnum Evrópusambandsins get ég gert það eins og ég hef gert um það bil 177 sinnum áður hér í pontu. Ég veit hins vegar að hv. þingmönnum stjórnarflokkanna finnst afstaða Vinstri grænna mjög flókin, þau eiga mjög erfitt með að skilja hana. Hv. þm. Birgir Ármannsson spyr mig kannski um hana á eftir og við getum rætt aðeins um svipuhöggin sem honum verður svo tíðrætt um og finnst gaman að ræða á Alþingi. Það er nefnilega svo að landsfundur Vinstri grænna nú síðast, 2013, samþykkti tillögu um að ljúka aðildarviðræðum og bera samning undir þjóðina. (VigH: Flokkur …) Þar var einnig borin upp tillaga um að greiða atkvæði um framhald aðildarviðræðna og það er sú tillaga sem þingflokkurinn lagði hér fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga. Það er meira en lítið undarlegt miðað við loforð formanna núverandi stjórnarflokka fyrir kosningar þar sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lofaði ítrekað þjóðaratkvæðagreiðslu, tiltók það meira að segja sérstaklega á hverjum fundinum á fætur öðrum sem ég sat með honum fyrir síðustu kosningar og að sú þjóðaratkvæðagreiðsla ætti að fara fram á fyrri hluta kjörtímabilsins. Nú nálgumst við það að kjörtímabilið sé hálfnað og enn bólar ekki á að þetta loforð verði efnt.

Hæstv. forsætisráðherra er hér og ég man líka eftir honum á fundi þar sem hann sagði að hann hefði alltaf gert ráð fyrir að slík þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram en hann væri (Gripið fram í.) opinn með tímasetningar. (Gripið fram í.) Margir túlkuðu þetta sem svo að hann ætlaði sér að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu þó að, eins og ég hef sagt hér áður, hæstv. forsætisráðherra hafi lag á að orða hlutina með opnum hætti.

Sjálfstæðisflokkurinn er svo á harðaflótta frá sínu eigin kosningaloforði. Í dag birtist athyglisverð frétt þar sem birt er mynd af vefsíðu Sjálfstæðisflokksins frá upphafi síðasta mánaðar þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Sjálfstæðisflokkurinn telur að leggja skuli áherslu á nýja fríverslunarsamninga við helstu ríki veraldar og traust samskipti við ESB á grundvelli EES-samningsins eins og gert er í dag. Kjósendur ákveði í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort aðildarviðræðum skuli haldið áfram.“

Þetta stóð sem stefna Sjálfstæðisflokksins í upphafi febrúarmánaðar samkvæmt vefsafni Landsbókasafnsins. Í dag stendur þetta hins vegar eins nema að síðustu setningunni er breytt, væntanlega eftir einhverja samþykkt flokksins. Kannski getur hv. þm. Birgir Ármannsson gert okkur grein fyrir því hvaða samþykktum hefur verið breytt frá því í upphafi febrúar því að í dag stendur í lokin, með leyfi forseta:

„Aðildarviðræðum var hætt árið 2013 og ekki eru uppi áform um að taka þær upp að nýju.“

Þjóðaratkvæðagreiðslan er bara horfin af vefsíðu Sjálfstæðisflokksins. Þetta er alveg óborganlegt, virðulegi forseti, sérstaklega í ljósi þess að þeir sem stýra vefsíðunni hafa greinilega ekki áttað sig á því að að sjálfsögðu eru öll gögn geymd. Það er hægur vandi að fletta upp í þessu þó að menn tippexi yfir þetta á vefsíðunni og vilji ekki kannast við loforðið sem þeir gáfu fyrir síðustu kosningar, hver einasti hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins en þau er ekki hér í dag. Þetta er meira en lítið hlægilegt.

Ég ætlaði eiginlega ekkert að ræða þetta. Ég ætlaði að ræða bréf hæstv. utanríkisráðherra hér í dag sem mér finnst kannski fyrst og fremst snúast um túlkun okkar á því hvernig þingið vinnur. Mér hefur skilist að ráðherrar starfi í umboði Alþingis og hér sé lýðveldi með þingbundinni stjórn, eins og kemur fram í stjórnarskrá. Menn hafa vitnað talsvert í lögfræðilega greinargerð Alþingis um gildi þingsályktana, hvort ráðherrar hafi heimild til að nema þær úr gildi. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra áðan í orðaskiptum sem við áttum að hann telji svo vera. Hann telur til að mynda að væri fyrir því meiri hluti hjá núverandi stjórnarflokkum gæti hann, án þess að bera það undir þingið, afturkallað viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

Mér finnst við komin í ákveðnar ógöngur ef skilningur hæstvirtra ráðherra og hæstv. ríkisstjórnar á þingræðinu er að það sé eðlilegt að ráðherrar gangi þvert á gildandi stefnu í utanríkismálum. Hér hefur líka skapast sú hefð að í utanríkismálum sé gildi þingsályktana, ekki bara þeirra sem byggja á þjóðréttarlegum samningum, með sérstökum hætti. Ég fæ ekki séð annað en að sú lögfræðilega greinargerð sem við höfum öll vitnað hér talsvert í ýti undir þá túlkun að ráðherrum beri að bera slíka stefnubreytingu undir þingið.

Ég leyfi mér að lesa það hér, með leyfi forseta:

„Þegar allt kemur til alls er það þingið sjálft sem ákveður hvort það fellur frá eða breytir ályktun sinni. Jafnframt er það í valdi þess að leggja mat á hvort ríkisstjórn eða ráðherra hafi fylgt eftir ályktun þess og eftir atvikum að bregðast við með þeim hætti sem það eða meiri hluti þess telur réttan.

Það er jafnframt niðurstaða þessarar samantektar að ríkisstjórninni, eða eftir atvikum hlutaðeigandi ráðherra, ber að eiga frumkvæði að því að upplýsa Alþingi ef hún hyggst ekki fylgja eftir ályktun þess. Hefur sérstökum stoðum verið skotið undir þessa reglu með breytingum á þingsköpum 2011. Verður slíkt annaðhvort gert með skýrslu ráðherra um afstöðu ríkisstjórnarinnar eða með nýrri þingsályktun. Með þeim hætti má reikna með að afstaða Alþingis verði fengin til ríkjandi stjórnarstefnu.“

Síðan er farið yfir það hvernig farið hafi verið með þá þingsályktun sem við ræðum hér nú. Lokaorðin eru nokkuð skýr:

„Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið verður að gera ráð fyrir því að Alþingi sé upplýst um slíkar breytingar og um leið leitað afstöðu þingsins eða meiri hluta þess til breytinga á málsmeðferðinni. Gildir þá einu hvort upphafleg ályktun þingsins teljist lagalega bindandi fyrir ríkisstjórnina eða ekki.“

Þetta finnst mér vera nokkuð skýr skilaboð úr þessari lögfræðilegu greinargerð, þ.e. að ráðherrum ber að leita að afstöðu þingsins. Síðan getum við rætt það hvort þessi stefnubreyting sé jafn mikil og sumir segja. Menn eru ekki á eitt sáttir um það hversu mikil hún er en menn hafa til að mynda vitnað í Björgu Thorarensen prófessor sem einmitt bendir á að hún telji að í öllu falli hefði þurft að upplýsa utanríkismálanefnd sem samkvæmt lögum um þingsköp á að vera ráðherra til ráðuneytis um öll meiri háttar utanríkismál. (Gripið fram í.)

Mín afstaða er sú að ekki aðeins hefði dugað að upplýsa utanríkismálanefnd, að sjálfsögðu hefði átt að upplýsa hana, heldur væri rétt í þessu tilfelli að taka málið inn í þingið, eins og hér er sagt, enda gildi einu hvort ályktunin teljist lagalega bindandi eða ekki. Við erum hreinlega með það kerfi og það er kannski stóra spurningin hér. Ráðherrar sitja í umboði þings og það er ekki nægjanlegt að ráðherrar telji sig hafa meiri hluta fyrir málum því að afstaða okkar til mála ræðst hér í þessum sal. Það er hér sem við stöndum fyrir máli okkar. Afstaða okkar getur breyst eftir umræðu sem á sér stað í þessum sal og við getum ákveðið að greiða atkvæði með tilteknum hætti eftir að hafa hlýtt á umræðu í þessum sal með öðrum hætti jafnvel en við töldum fyrst að við mundum gera.

Því nægir ekki og getur ekki nægt að leita eingöngu til þingflokka stjórnarflokkanna sem skipa meiri hlutann á hverjum tíma. Það getur ekki verið nægjanlegt skilyrði til að telja að maður starfi í umboði meiri hluta þingsins. Til þess að gera það þarf að leita afstöðu þingsins.

Mér finnst þetta benda til þess að við séum lent í ógöngum hvað varðar þingstörfin og túlkun okkar á því hvernig við umgöngumst Alþingi. Ég heyri ekki betur en að ýmsir hv. þingmenn taki undir það með einum eða öðrum hætti að það sé jafnvel ástæða til að skýra þetta í lögum eða eitthvað slíkt. En eigum við að vera að ræða þessi mál út frá nákvæmlega orðanna hljóðan í lögum? Eigum við ekki að ræða um hvernig við viljum að þingið starfi? Því ræður enginn nema við sem sitjum hér. Við getum öll bent á endalaus dæmi úr fortíðinni þar sem einhver gerði eitthvað með einhverjum hætti sem við erum ekki sátt við, örugglega úr okkar eigin flokkum og öllum hinum flokkunum, einhver upplýsti ekki þennan, gerði þetta ekki svona eða hinsegin. Og meðan við höldum okkur við það að dveljast í fortíðinni náum við engum framförum, það er alveg á hreinu. Ef við ætlum alltaf að vera föst í tímabilinu 2009–2013, eins og ég hef sakað núverandi hæstv. ríkisstjórn um að vera stundum, komumst við ekkert áfram. Við sem hér sitjum hljótum að velta fyrir okkur ábyrgð okkar, við 63 sem hér sitjum núna berum ábyrgð á þessu þingi. Erum við sátt við það að meiri háttar ákvarðanir í utanríkismálum séu teknar með þessum hætti? Eða teljum við eðlilegt að þingið fjalli um þær?

Ályktunin frá í fyrra var vissulega umdeild og það komu aðrar tillögur inn og ég vil minna á tillögu sem við lögðum fram í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þar sem við sögðum: Gott og vel, núverandi ríkisstjórn telur það pólitískan ómöguleika, eins og frægt varð, að ljúka þessum aðildarviðræðum. Við leggjum þá til að gert verði hlé á þessum viðræðum en það verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla á tímabilinu þannig að unnt sé að leita leiðsagnar þjóðarinnar um það hvernig eigi að halda á þessu máli áfram.

Af því að hæstv. utanríkisráðherra vildi meina áðan að tillaga hans um afturköllun hefði verið stoppuð hér leyfi ég mér að benda á að hún var rædd í ekkert sérstaklega langri umræðu miðað við ýmis mál sem hér eru rædd, hún fór til utanríkismálanefndar ásamt tillögu Vinstri grænna og tillögu sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar, Pírata og Bjartrar framtíðar fluttu, ef ég man rétt, um þjóðaratkvæðagreiðslu sem var öðruvísi orðuð og þingið hafði fullt tækifæri til að taka þessi mál til afgreiðslu. Ég man ekki eftir að við höfum verið hér langt fram yfir settan dag í fyrra, satt að segja. Ég tel að þingið hefði haft fullt tækifæri til að ljúka þessari afgreiðslu og taka afstöðu til málsins líka, taka þá um leið afstöðu til þeirra tillagna sem lágu fyrir um að leita leiðsagnar þjóðarinnar. Það hefði verið hægur vandi af því tilefni.

Ég get ekki tekið undir að þetta mál hafi verið stoppað hér miðað við ræðutíma og ég get ekki séð annað en að það hefði gert málinu gott að taka það til afgreiðslu ásamt þeim tillögum sem lágu fyrir um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þá hefðum við getað fengið afstöðu manna algjörlega á hreint því að mér nægir eiginlega ekki að fá að horfa á loforð forustumanna Sjálfstæðisflokksins afgreidd þannig að þau séu tippexuð út af heimasíðu flokksins og að við fáum ekki tækifæri til að heyra í þingsal hvernig þeir mundu greiða atkvæði um slíka tillögu. Ég verð að segja að ég hefði mikinn áhuga á að heyra og vera viðstödd þá atkvæðagreiðslu því að ég trúi ekki öðru en að þeir stæðu við þau loforð sem þeir gáfu fyrir kosningar. Þau munu ekki gleymast.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um þessi mál hér. Þetta finnst mér hins vegar kalla á að við ráðum ráðum okkar hér á þinginu um hvernig við túlkum ályktanir þingsins. Það er hlutverk löggjafarsamkundunnar og framkvæmdarvaldið sér um að útfæra það sem löggjafarsamkundan samþykkir, hvort sem það eru lög eða ályktanir. Það er sá andi sem við hljótum öll að starfa samkvæmt. Ef núna er uppi önnur túlkun, þ.e. að ályktanir haldi ekki gildi sínu í raun fram yfir hvert þing, og mér finnst það ný túlkun. Ég man eftir að hafa sem menntamálaráðherra unnið að framgangi ályktana sem voru samþykktar fyrir minn tíma í því ráðuneyti á öðru þingi og fannst ekkert athugavert við það. Ef við ætlum að segja að þær ályktanir þurfi að njóta meiri hluta á hverjum tíma í þinginu þurfum við að taka þetta til umræðu, ekki satt? Þurfum við ekki að taka það til umræðu og ræða hvort við viljum hafa það þannig, hvort það sé ástæða til að við förum yfir þessa túlkun og áttum okkur á því hvort við séum sammála um hana? Mér finnst það stóra málið sem situr hér eftir. Af þessu hef ég áhyggjur því að við sitjum hér í umboði þjóðarinnar. Við erum ekki bara fulltrúar okkar flokka eða okkar kjördæma, við erum öll kjörnir fulltrúar þjóðarinnar og eigum að starfa sem slíkir og þess vegna skiptir máli að við séum sammála um þær leikreglur sem gilda í þinginu og þær venjur og hefðir sem við viljum fylgja hér.