144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:41]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Þeir stjórnarandstæðingar sem hér hafa talað í þessu máli hafa gagnrýnt mjög hvernig ríkisstjórnin ætlar sér nú að stoppa málið og sé að gera það á mjög ólýðræðislegan hátt. Það er þess vegna sem það er mikilvægt að velta fyrir sér hvernig þetta mál var sett af stað.

Af því að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir var að svara hér hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur áðan langar mig að lesa, með leyfi forseta, uppprentaðar upptökur deginum fyrir kosningar 2009.

Þar spyr Sigmar Guðmundsson hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, þáverandi formann VG: Kemur það til greina, Steingrímur, bara svo ég spyrji þig, að hefja undirbúning að því að sækja um strax núna eftir kosningar? Nei. Vegna þess að þannig hefur samfylkingarfólkið talað Nei, segir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Að þetta byrji í sumar? Nei, segir hv. þingmaður. Hvenær getur þetta byrjað? Þá segir hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon: Það samrýmist ekki okkar stefnu og við hefðum ekkert umboð til slíks.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að talað er um að (Forseti hringir.) fá þurfi fram þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál: (Forseti hringir.) Var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ekki að fara rétt með stefnu flokksins, vegna þess að Katrín Jakobsdóttir virðist á öðru máli? Í öðru lagi: Af hverju studdi (Forseti hringir.) hv. þm. Katrín Jakobsdóttir það ekki á sínum tíma að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um málið?

(Forseti (SilG): Forseti biður hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)