144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo ég tali út frá mínum sjónarmiðum prívat og persónulega þá studdi ég leiðina 2009 um að ekki yrði farið í aðildarviðræður við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú afstaða lá alveg skýr fyrir 2009, að ekki yrði farið af stað í viðræður nema haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég stóð líka að samþykkt landsfundar Sjálfstæðisflokksins snemma árs 2013 þar sem kom skýrt fram að flokkurinn vildi hætta viðræðum og ekki yrði farið af stað aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það liggur auðvitað fyrir að ýmsir frambjóðendur flokksins voru með yfirlýsingar sem gengu lengra í kosningabaráttunni, en það er hins vegar líka alveg ljóst að í ríkisstjórnarsáttmálanum sem birtist í maílok 2013 var notað svipað orðalag og í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins, þ.e. að viðræður yrðu stöðvaðar eða þeim hætt og ekki farið af stað (Forseti hringir.) að nýju nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.