144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta mál er sorglegt en er líka orðið æði háðulegt. Það er svolítið lágt risið á hæstv. utanríkisráðherra, ríkisstjórninni, framkomu Íslendinga á alþjóðavettvangi, mér finnst ég upplifa það í þessu máli. Hæstv. utanríkisráðherra fer á fund í Slóvakíu, afhendir þar kollega sínum hálfgert leynibréf frá ríkisstjórninni sem utanríkisráðherra Íslands lítur svo á að sé uppsögn eða afturköllun á aðildarumsókn Íslendinga. Svo koma viðbrögð frá fjölmiðlafulltrúa stækkunarstjóra Evrópusambandsins þar sem fjölmiðlafulltrúinn lýsir því yfir að þetta sé ekki fullgild afturköllun á umsókn Íslands. Hæstv. utanríkisráðherra, utanríkisráðherra þjóðarinnar, segir fjölmiðlafulltrúa stækkunarstjóra vera úti á túni. Ég held að þetta sé einhver lægsti punkturinn í utanríkismálum Íslendinga í seinni tíð. Utanríkisráðherra þjóðarinnar er kominn í skærur við fjölmiðlafulltrúa stækkunarstjóra í Brussel um það hvernig eigi að túlka bréf sem hann fór með á fund í Slóvakíu. Þetta lýsir auðvitað því hversu háðulegt þetta mál er orðið fyrir ríkisstjórn Íslands og að mörgu leyti fyrir Íslendinga.

Það er auðvitað alveg skýrt að ekki er verið að afturkalla umsókn Íslands að Evrópusambandinu, það liggur alveg fyrir. Það er í sjálfu sér enginn að deila um það að utanríkisráðherra megi skrifa eitthvert bréf þar sem hann áréttar viðhorf ríkisstjórnar sem hann situr í, að ríkisstjórnin ætli ekki að taka þátt í aðildarviðræðum á meðan hún situr. Það hefur alveg legið fyrir að það eru engar viðræður í gangi eins og er en þeim hefur ekki verið slitið. Það er mjög mikilvægt að tala skýrt í stjórnmálum, mjög mikilvægt að tala skýrt þegar maður er utanríkisráðherra Íslendinga. Mér finnst þetta mál einkum og sér í lagi vera orðið einhvers konar lærdómur í því hversu mikilvægt það er að tala skýrt.

Af hverju er þetta svona mikið hitamál í þinginu? Af hverju finna svona margir í þinginu sig knúna til að tala um fundarstjórn forseta og til að tala um þessi mál þegar þau ber á góma hér? Það er ekki einungis vegna þess að aðild að ESB er hitamál í samfélaginu og hefur verið í áratugi, það er ekki bara út af því. Það er ekki síst út af því að menn hafa ekki talað skýrt, menn hafa ekki verið heiðarlegir og menn virða ákveðna grunnferla lýðræðisins.

Það efast enginn um það að ríkisstjórnin, sú sem nú situr, geti slitið viðræðunum en hún verður að fara eftir þeim viðurkenndu reglum sem fyrir hendi eru. Hún eða þeir flokkar sem standa að ríkisstjórninni hefðu til dæmis átt að lýsa því yfir í síðustu kosningum, þegar þeir sóttu umboð til þjóðarinnar, að þeir ætluðu að slíta viðræðunum. Þeir gerðu það ekki. Enginn sem nú situr sem ráðherra lýsti því yfir, það var ekki hluti af stefnu þessara flokka, þeir sögðu kjósendum ekki að þeir ætluðu að slíta viðræðunum. Þar með, og burtséð frá allri lögfræði, tölum bara um heiðarleika, tölum bara um lýðræði, sóttu ríkisstjórnarflokkarnir sér ekki lýðræðislegt umboð í einhverju stærsta deilumáli þjóðarinnar, í einhverju stærsta úrlausnarefni og viðfangsefni þjóðarinnar. Þeir hafa ekki lýðræðislegt umboð, þeir sóttu það ekki.

Þeim var í lófa lagið, þessum mönnum sem buðu sig fram til þings 2013 fyrir hönd flokka sinna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að lýsa því yfir að ef þeir færu í ríkisstjórn, að ef þeir flokkar færu í ríkisstjórn mundu þeir slíta viðræðunum. Það gerðu þeir ekki. Hvers vegna ekki? Vegna þess að þeir hefðu líklega ekki fengið jafn góða kosningu. Það var ekki vilji meðal þjóðarinnar til þess að slíta viðræðunum. Það hafa kannanir sýnt, vel yfir 80% þjóðarinnar vilja halda viðræðunum áfram, vilja ekki slíta þeim. Og það eru augljós rök fyrir því. Fólk er upp til hópa, held ég, orðið langþreytt á deilunni um það hvort við eigum að vera aðilar að Evrópusambandinu eða ekki, það vill fá samning og vill fá að taka afstöðu til samnings, eins og margar aðrar þjóðir hafa gert. Þess vegna sögðu þeir sem buðu sig fram fyrir ríkisstjórnarflokkana í síðustu kosningum aldrei að þeir ætluðu að slíta viðræðunum. Þess vegna er þetta svona mikið hitamál hér, vegna þess að ríkisstjórnin sótti sér ekki umboð, hún gerði það ekki.

Hins vegar sagði ríkisstjórnin að hún mundi leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um það hvort halda ætti viðræðunum áfram. Ástæða þess að þetta er svona mikið hitamál er að ríkisstjórnin ætlar samviskulaust að svíkja það loforð. Nú er ég ekki aðeins að tala um það sem gerðist fyrir kosningar. Það stendur ekki einu sinni í stjórnarsáttmálanum að slíta eigi viðræðunum, það er ekki einu sinni þar, það er ekki orð um að slíta eigi viðræðunum. Það er sagt að gert verði hlé á viðræðunum og þeim ekki haldið áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er það sem er sagt.

Við í Bjartri framtíð höfum sagt: Allt í lagi, við erum reiðubúin að sætta okkur við það. Við höfum komið með ótrúlegt sáttaboð í þessu máli um að við séum reiðubúin að sætta okkur við það sem stendur í stjórnarsáttmálanum um málið, við séum reiðubúin til þess. Ríkisstjórnin framfylgir því ekki einu sinni sínum eigin stjórnarsáttmála þegar hún reynir eftir krókaleiðum að slíta viðræðunum. Þetta er auðvitað allt með ólíkindum.

Síðan kemur núna þessi fordæmalausa atlaga að þingræðinu. Henni hefur verið hrundið, held ég. Ég held að hún hafi misheppnast vegna þess að það er alveg kristaltært, alveg sama hvaða orðaleiki menn reyna að fara í, að aðildarviðræðunum hefur ekki verið slitið, umsóknin hefur ekki verið dregin til baka. Það er hlé á viðræðunum og það er í sjálfu sé eitthvað sem allir vissu.

Hvað samþykkti Alþingi árið 2009? Það samþykkti að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild að Evrópusambandinu og fara í viðræður. Það var farið með umsókn til Evrópusambandsins. Þetta er nefnilega ekki bara þingsályktun Alþingis, þetta er líka milliríkjamál. Þetta er heimild til ríkisstjórnarinnar og beiðni til ríkisstjórnarinnar og henni er falið að fara með umsókn til Evrópusambandsríkjanna. Síðan voru það 27 þáverandi ríki Evrópusambandsins sem eftir lýðræðislegum leiðum sínum tóku afstöðu til umsóknarinnar og þau samþykktu hana öll. Í sumum tilvikum þurfti samþykki þjóðþings til, eins og í Þýskalandi og Litháen, en alls staðar, byggt á lýðræðislegum grundvallarprinsippum, var aðildarumsókn Íslands samþykkt. Þetta er gert með heimild Alþingis. Þetta er milliríkjamál, þetta er yfirlýsing Alþingis um að við ætlum að hafa þessa stöðu. Þeirri stöðu verður ekki breytt nema með ályktun Alþingis og miðað við loforð stjórnarflokkanna auðvitað með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er svolítið merkilegt að heyra þetta tal um að utanríkismál séu á hendi ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin hefur framkvæmdarvaldið, hún fer með málaflokkana, en hún gerir ekkert nema með heimild Alþingis. Þegar maður rennir yfir þingsályktunartillögur sem í gildi eru inni á heimasíðu Alþingis þurfum við varla að ræða þetta neitt frekar, það getur varla verið deilumál við hæstv. utanríkisráðherra eða hv. formann utanríkismálanefndar að ríkisstjórnin gerir ekkert í utanríkismálum nema með heimild Alþingis. Allar EES-staðfestingarnar eru þingsályktanir og þær byrja allar svona: Alþingi Íslendinga heimilar ríkisstjórninni að staðfesta ákvörðun EES-nefndarinnar. Eða sameiginlegu EES-nefndarinnar eða hvernig sem það er orðað. Þetta er líka svona í öllum samningamálum milli okkar og annarra þjóða, í fiskveiðimálum, fríverslunarsamningum og hinu og þessu. Alþingi heimilar ríkisstjórninni að staðfesta fríverslunarsamning við Kína. Ríkisstjórnin gerir það ekkert.

Ef ríkisstjórnin ætlar að segja upp fríverslunarsamningnum við Kína þarf að sama skapi, það er sjálfstæð ákvörðun, heimild Alþingis. Ég trúi ekki einu sinni að við séum að ræða þetta, þetta er augljóst mál. Ef við ætlum að breyta einhverjum samningum Íslands og Noregs um veiðar úr síldarstofnum eða eitthvað svoleiðis, sem Alþingi hefur veitt ríkisstjórninni heimild til að gera, þá þarf heimild til þess hér. Þannig er þetta bara.

Heldur einhver öðru fram? Það gildir það sama í þessu: Ef Alþingi Íslendinga samþykkti að Ísland, í milliríkjamáli, í samskiptum við ESB, skyldi gerast umsóknarríki þarf Alþingi Íslendinga auðvitað líka að breyta þeirri ákvörðun. Alveg eins og ríkisstjórnin mundi þurfa heimild Alþingis ef hún hygðist nema úr gildi einhverjar EES-samþykktir, svo dæmi sé tekið, ég get ekki séð annað. Þetta er inntak þess að ríkisstjórnin er þingbundin.

Svo þurfum við ekki endilega að ræða lögfræðina í þessu. Ræðum hvernig heilbrigð stjórnmál eru. Hvernig á þetta að vera? Ríkisstjórnin er ekki kosin af þjóðinni, ráðherrarnir eru ekki kosnir af þjóðinni. Þingið er þjóðkjörið, það er kosið af þjóðinni, það sækir umboð sitt til hennar. Þetta er langvaldamesta stofnun lýðveldisins. Ef þingið væri einn maður væri hann einræðisherra, hann mundi ráða öllu. Hér eru ákvarðanirnar teknar og við dreifum valdinu til 63 fulltrúa. Það ber að bera virðingu fyrir því. Það er svo mikið lykilatriði í því að stunda stjórnmál og þegar maður segist bera virðingu fyrir lýðræðinu er það að bera virðingu fyrir þessari stofnun.

Mér finnst ég hafa séð á undanförnum dögum að þeirri virðingu er greinilega ábótavant. Það finnst mér alvarlegt í þessu. Það finnst mér eitthvað sem við þurfum virkilega að hreinsa og ræða í þaula, vegna þess að það verður að vera alveg kristaltært að þingið ræður. Vissulega styðst ríkisstjórnin við meiri hluta, en hún verður að sækja meiri hluta sinn í einstaka málum, við verðum að virða formreglur. Ríkisstjórnin getur ekki sagt: Við höfum meiri hluta og þess vegna þurfum við ekki að greiða atkvæði. Það þarf alltaf að raungera þennan meiri hluta, í því felst virðingin. Annars erum við komin í algjörar ógöngur.

Virðulegur forseti. Það er gríðarlega mikilvægt að tala skýrt. Varðandi ESB er alveg átakanlegt að sjá hvað báðir stjórnarflokkarnir hafa talað óskýrt. Það er hryggilegt. Fyrir kosningar 2009 hafði Framsóknarflokkurinn það á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hann var ekki að tala um að greiða ætti atkvæði um það eða neitt svoleiðis, það átti að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Álit utanríkismálanefndar með þingsályktunartillögunni um að sótt skyldi um aðild byggði mjög á ályktun Framsóknarflokksins frá því í janúar 2009 um að sótt skyldi um aðild.

Framsóknarflokkurinn snýst síðan gegn þeirri stefnu strax eftir kosningar. Fyrir kosningar 2013 lofar Framsóknarflokkurinn því að það verði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðnanna. Og hann snýst gegn því eftir kosningar. Ef menn vilja eitthvað í Evrópumálum, ef menn vilja slíta viðræðum eiga þeir að tala skýrar og fara eftir leikreglum lýðræðisins, (Forseti hringir.) en ekki fara baktjaldaleiðir í þessu. Um það snýst þetta.