144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:38]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var í ræðu minni að benda á þann eiginleika í þessari þingsályktunartillögu sem um er rætt og hún varðar milliríkjamál og er að því leyti til, hygg ég, mjög svipuð öðrum þingsályktunartillögum sem varða milliríkjamál. Þetta er ekki bara þingsályktunartillaga sem var samþykkt hér, hún var lýðræðislega samþykkt hér, hún verður að vera það vegna þess að hún fól það í sér að farið var með skilaboð til annarra landa, og við fengum í krafti þessarar þingsályktunartillögu ákveðinn status í viðræðum við önnur lönd. Skilurðu hvað ég á við, hv. þingmaður?

Þetta er þingsályktun um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Hún er að því leyti til mjög svipuð öðrum þingsályktunum um það sama efni. Mér finnst mjög sérstakt að reyna að beita einhverjum svona lagakrókum til þess að halda öðru fram.

Mér finnst líka mjög sérstakt í umræðunni almennt að gerð sé svona rosaleg, ríkuleg krafa, lýðræðiskrafa til þess hvernig þingsályktunin var samþykkt 2009 og líka um þinglega meðferð og lýðræðislega meðferð á öllum ályktunum og ákvörðunum um samskipti við Evrópusambandið í framtíðinni. Þær eiga að fara fyrir þjóðina og þar fram eftir götunum, má skilja á máli stjórnarliða. En núna, þegar þessi stóra ákvörðun liggur fyrir eða á að taka eða á að reyna að taka um að slíta viðræðunum, sem er mjög stór ákvörðun, mjög stór utanríkispólitísk ákvörðun, sem mundi breyta þessum status Íslendinga á alþjóðavettvangi, þá er engin krafa um þinglega meðferð, þá er engin krafa um aðkomu þjóðarinnar. Þetta er mótsögn í umræðunni.

Svo vil ég segja að það er náttúrlega ótrúlega losaraleg túlkun á þingræðisreglunni að ráðherra geti bara gert það sem honum sýnist svo framarlega sem hann er ekki felldur í vantrausti.