144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[19:00]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Það er mér sérstök ánægja að taka þátt í þessari umræðu sem ég tel að sé mjög mikilvæg og skipti miklu máli. Sá þingmaður sem hér stendur hefur gert sér far um að reyna að rækja hlutverk sitt á Alþingi og það umboð sem honum hefur verið veitt með því að sitja hér á Alþingi eins vel og honum tekst. Almennt legg ég mikið upp úr því að mæta hingað til funda með kaldan haus og heitt hjarta ef svo má orða. Það hefur almennt tekist vel og jafnvel stundum að brosvöðvarnir hafi fengið að fljóta með. En síðustu daga, eftir furðulegar og óvæntar fréttir á fimmtudagskvöldið af bréfi hæstv. utanríkisráðherra til Evrópusambandsins verður að segja sem svo að tilfinningin hefur færst dálítið frá höfðinu og niður í maga og ekki er laust við að manni sé um og ó. Því miður hafa umræður og opinber ummæli hæstv. utanríkisráðherra og annarra í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi síðustu daga ekki hjálpað til við að skýra stöðuna fyrir þessum þingmanni. Á fimmtudagskvöldið voru fyrstu viðbrögð mín sem fulltrúi Bjartrar framtíðar í utanríkismálanefnd að óska eftir fundi í nefndinni. Af honum varð núna í morgun og þá var fundur utanríkismálanefndar með ráðherra. Ég vil þakka fyrir þann fund, þó að því miður hafi margt enn verið óljóst í mínum huga eftir þann fund. Mér þykir þó að í þessari ágætu umræðu í dag hafi ýmislegt skýrst, alla vega fyrir mér sjálfum. Vona ég þá að hausinn sé alla vega aðeins að skrúfast aftur á þennan þingmanninn, í það minnsta er hjartað farið að slá.

Mér þykja vera tvö aðalatriði og mikilvæg atriði sem liggja í þessum tíðindum af títtnefndu bréfi utanríkisráðherrans sem hann því miður sá sér ekki fært að leggja fyrir hvorki þing né hv. utanríkismálanefnd áður en því var skilað til útlanda. Það er annars vegar merking bréfsins nákvæmlega. Því miður voru fullyrðingar í fjölmiðlum dálítið misvísandi um nákvæmlega hvað bréfið merkti, en ég verð að fagna því sem hefur komið fram hér í dag, í þessum stól, sérstaklega í andsvörum, að stjórnskipulega er bréfið fyrst og fremst árétting á skilningi ríkisstjórnarinnar og þeirri þekktu afstöðu hennar að hún hygðist ekki vinna að aðildarferli Íslands að Evrópusambandinu. Það eru í sjálfu sér ekki-fréttir. Hins vegar er það skýrt í mínum huga að umsókn Íslands hefur ekki formlega verið dregin til baka þannig að segja má að við séum á svipuðum stað og til dæmis Sviss sem lagði inn umsókn að Evrópusambandinu en stöðvaði allar raunverulegar viðræður og sést víst ekki á netsíðum sambandsins sem umsóknarríki, enda er kannski svo langt um liðið að það má spyrja hvort búið hafi verið að finna upp internetið þegar það gerðist.

Í það minnsta þykir mér þetta vera mikil tíðindi og vafinn um þetta hefur verið mjög óheppilegur. Hann hefur valdið mikilli ólgu í samfélaginu. Sú ólga held ég að sé enn í samfélaginu vegna þess að ég held að það hafi alltaf verið krafa til þess að við sem störfum í stjórnmálum og störfum hér í þessum sal tölum skýrt, en ég held að sú krafa, ef eitthvað er, sé háværari í dag en hún var í það minnsta hér fyrir árið 2008. Mér þykir mjög mikilvægt að talað sé skýrt í svona mikilvægum málum. Mér þykir alveg sérstaklega mikilvægt að talað sé skýrt þegar kemur að samskiptum Íslands við aðrar þjóðir, sem ég held að við séum öll sammála um að skipta litla einangraða þjóð enn meira máli en aðrar stærri þjóðir sem geta kannski auðveldar lokað sig af í krafti sinnar stærðar og krafts.

Hitt málið sem ég hef miklar áhyggjur af og hefur valdið mér óþægindum og valdið því kannski að hugsunin hafi færst niður í magann, og það verður að segjast eins og er að iðrin hafa ekki róast fullkomlega í dag, en það er sú túlkun hæstv. utanríkisráðherra í fjölmiðlum og að mér fannst að einhverju marki á fundi utanríkismálanefndar í morgun að staða þingsályktana væri í raun og veru óljós, að óljóst væri hvenær það væri lögfræðileg skylda ríkisstjórnarinnar að fylgja ályktunum Alþingis, hvenær hún mætti, ja, við skulum ekki hunsa þær heldur trassa að fylgja þeim. En líka hitt hvort ríkisstjórninni sé heimilt að ganga beinlínis gegn þingsályktunum Alþingis án þess að bera það fyrst undir Alþingi og fá þá nýja þingsályktun þar um hér á þingi. Ég held að það að komin sé upp óvissa um stöðu þingsályktana og ákvarðana Alþingis — því miður kom upp annað dæmi hér í morgun þegar meiri hluti atvinnuveganefndar ákvað að fara út úr nefndinni með breytingartillögur sem stangast á við gildandi lög — sé því miður merki um að við erum í stjórnskipulegri krísu sem er ekki bara stórt vandamál fyrir Alþingi og þar með ríkisstjórnina sem situr jú í umboði Alþingis, heldur fyrir lýðræðið á Íslandi almennt. Það þykir mér grafalvarlegt mál.

Hér í umræðunni og í umræðum um stöðu Alþingis í þessum sal í gær hefur oft verið vitnað í álit sem var gert af skrifstofu Alþingis að beiðni forseta Alþingis fyrir réttu ári þar sem er áréttuð staða þingsályktana. Þar segir í niðurstöðum í samantektinni, með leyfi forseta:

„Þegar allt kemur til alls er það þingið sjálft sem ákveður hvort það fellur frá eða breytir ályktun sinni. Jafnframt er það í valdi þess að leggja mat á hvort ríkisstjórn eða ráðherra hafi fylgt eftir ályktun þess og eftir atvikum að bregðast við með þeim hætti sem það eða meiri hluti þess telur réttan.“

Í umræðunni hefur mátt skilja á hæstv. utanríkisráðherra að hann sé ekki endilega sammála þessum skilningi, að hann telji sig ekki endilega bundinn þingsályktunum. Síðan hafa verið umræður hér í dag um hvaða þingsályktanir séu lagalega bindandi og hverjar ekki. Óvissa um þetta þykir mér vera grafalvarleg og kalla á umræðu, ekki bara fyrir framtíðina í þingstörfum heldur ekki síður fyrir þær þingsályktanir sem hafa verið samþykktar og þingheimur hefur hingað til talið að væru í gildi. Eins og kom fram í óundirbúnum fyrirspurnum við ráðherra í gær telja í það minnsta sumir ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar að þær séu í gildi þrátt fyrir að kosningar hafi orðið á milli. Þetta þykir mér grafalvarlegt mál. Ég kýs að taka undir með forseta Alþingis frá ræðu hans í gær þar sem hann segir að þingsályktun Alþingis frá 2009 sé í gildi, og eigi að breyta þeirri ákvörðun sé það þingsins vissulega að gera það. Það (Forseti hringir.) þýðir auðvitað ekki að ályktun frá fyrra þingi gildi út yfir gröf og dauða, það þýðir þá fyrst og fremst að það er Alþingis að samþykkja ályktun um annað og allar tilraunir til þess að ganga fram hjá Alþingi í slíkum málum þykja mér alvarlegar.