144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[20:21]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður veltir því eðlilega fyrir sér hvernig það megi vera að hæstv. ráðherra sendist með bréf til Brussel sem hann skrifar undir sjálfur en vafi leikur á að hann hafi lesið og hafi hann lesið það þá hafi hann örugglega ekki skilið það. Það má ráða af ummælum hæstv. ráðherra. En hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er praktískasti stjórnmálamaður sem ég hef unnið með, lausnamiðaður og hann veltir hér upp lausn á málinu, að fá annaðhvort dulmálsfræðing ellegar þá miðil. (Gripið fram í.) Þá vil ég líka segja að ég get lagt fram liðsinni fjölskyldu minnar. Maggi bróðir er skólastjóri Sálarrannsóknaskólans og er manna bestur í að ráða gátur lífs og dauða. Væri ekki ráð að fá hann til þess að ráða gátuna um það hvað var í þessu bréfi?

En gamanlaust, herra forseti, það er mikið alvörumál að utanríkisstefnan sé rekin með þessum hætti. Hvar á byggðu bóli þekkist það að hæstv. ráðherra geti ekki einu sinni skýrt eigin stefnu og skipti um skoðun dag frá degi, segi einn dag að búið sé að ganga frá málinu, hinn daginn lýsi hann því yfir, að vísu í frétt sem var falin í Morgunblaðinu á bls. 14, að hann hafi ekki afhent neitt bréf sem slíti einu eða neinu? Hver á að taka mark á þjóð sem talar með þessum hætti á alþjóðavettvangi?

Aftur að minni fyrri spurningu. Hvað er þarna á bak við? Ég spyr hv. þingmann sem hefur langa reynslu að baki hvort það gæti verið að hæstv. ráðherra hafi farið út og undirbúið kynningarherferð sína svo vel, eins og hv. þingmaður lýsti áðan, til þess að geta komið heim og blekkt félaga sína sem líta til hans sem leiðtoga lífs síns í Heimssýn og sagt: Ég er búinn að ganga frá málinu. Hinn raunverulegi tilgangur hafi verið sá einn að fá okkur tekin af einhverjum lista yfir umsóknarríki en halda hins vegar ferlinu algjörlega óskertu. Var þetta allt saman bara blekkingaleikur (Forseti hringir.) ætlaður til heimabrúks og fyrst og fremst gagnvart þeim í Heimssýn sem hafa (Forseti hringir.) ásakað hann um að bregðast?