144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[21:16]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hér með þessa góðu skýrslu og á bls. 65, í niðurlagi kaflans um sjávarútvegsmál, stendur, með leyfi forseta:

„Eins og áður greinir eru fordæmi fyrir því að unnt sé að ná fram tímabundnum undanþágum eða jafnvel annarri lagasetningu sambandsins í þágu íslenskra hagsmuna ef þær eru vel rökstuddar. Slíkar undanþágur halda þó aðeins þann tíma sem þeim er markaður og/eða þar til breyting kann að vera gerð á viðkomandi löggjöf sambandsins. Varast ber að leggja mikið upp úr yfirlýsingum sem fylgja kunna aðildarsamningi, a.m.k. að því er lögfræðilegt gildi þeirra varðar.“