144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[22:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, svo sannarlega sniðgengur hæstv. ríkisstjórn Alþingi með þeirri ferð sem þau eru að fara í. Aftur verður að hafa í huga þegar ríkisstjórnarflokkarnir voru reknir til þess á árinu 2013 með lögfræðiáliti o.fl., sem þeir viðurkenndu með því að leggja fram þingsályktunartillögu á síðasta vetri um slit viðræðna. Það var ekkert annað en viðurkenning á því að það væri eðlileg leið í gegnum þingið, það væru hefð og venjur sem skapast hefðu í þingræðinu á Íslandi, sem m.a. hefur verið skrifað um í bók sem Alþingi gaf út árið 2014.

Virðulegi forseti. Það er þetta sem málið snýst um. Það er verið að sniðganga Alþingi og þess vegna eru þessar hörðu umræður hér. Þess vegna er fólki ofboðið úti um allt land, átta þúsund manns mæta á mótmælafund o.s.frv. Þar að auki bætist við, og það skulum við hafa í huga, hin ótrúlega skýru loforð forustumanna, oddvita Sjálfstæðisflokksins í öllum kjördæmum, sem fóru með stíla sína alveg rétt í hverju kjördæminu á fætur öðru, formaðurinn í sjónvarpsþáttum, þar sem lofað var að framfylgt yrði þjóðaratkvæði um það hvort halda ætti viðræðunum áfram eða ekki. Og forsætisráðherra var spurður, eins og ég gat um áðan, í Hörpu og þar svaraði hann líka afdráttarlaust.

Ofan á þessa ruddamennsku gagnvart Alþingi, þar sem vaðið er yfir Alþingi á skítugum skónum, bætast ótrúlega skýrar yfirlýsingar og svik stjórnarflokkanna, forustumannanna, á því loforði sem fólkið kaus þá m.a. út á; að greiða ætti atkvæði. Það var hluti af loforðunum, virðulegi forseti, það var hluti af því að Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki tókst þó (Forseti hringir.) að draga þessi atkvæði til sín sem þeir voru með.