144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[23:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór inn á þá lensku sumra stjórnarliða að heimta vantrauststillögu ef einhver er ósáttur við það að Alþingi sé sniðgengið. Mig langar gjarnan að heyra aðeins meira um þá taktík vegna þess að mér finnst hún í raun og veru lýsa því betur en við höfum kannski áttað okkur á enn sem komið er, þ.e. hugarfari þessarar ríkisstjórnar gagnvart þingheimi öllum. Þá er ég ekki að tala um stjórnarandstöðuna eða minni hlutann heldur þingmenn stjórnarmeirihlutans.

Ef maður segir við einhverja manneskju, ef hún er ósátt við eitthvað sem maður gerir, að hún skuli lýsa yfir vantrausti, þá er maður að segja að hún hafi ekkert um ákvörðunina að segja nema það komi til svo róttæks verkfæris. Og vantraust er róttækasta verkfærið sem við höfum hér á bæ. Ef við segjum til dæmis að hv. 3. þm. Suðvest., Ragnheiður Ríkharðsdóttir, hafi eitthvað út á þessi vinnubrögð að setja, ja, þá gæti hún alveg eins lýst yfir vantrausti á ríkisstjórnina. Það er það sem ríkisstjórnin er að segja við sitt eigið fólk. Ég get ekki séð það vera neitt annað en kúgun, ekki kúgun á minni hlutanum, athugið það, þó að það sé vissulega ómálefnalegt, heldur kúgun á þingmönnum meiri hlutans sem geta þá ekki gagnrýnt þessi fáránlegu og viðurstyggilegu vinnubrögð nema í sömu andrá að lýsa vantrausti eða að hafa ekkert um málin að segja. Í þessu felst valdhroki hæstv. ríkisstjórnar gagnvart Alþingi. Mér þætti gaman að heyra fleiri orð um þennan þátt af þessari valdbeitingu frá hv. 9. þm. Reykv. s.