144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég hafði beðið um að eiga orðastað við hv. þm. Frosta Sigurjónsson en fyrst hann er hvergi sjáanlegur langar mig bara að beina þessari umræðu og bollaleggingum til allra þingmanna Framsóknarflokksins. Þær varða þjóðaratkvæðagreiðslur.

Mig langaði að spyrja ykkur, ágætu þingmenn Framsóknarflokksins, hvort þið takið undir það sem ég mun hér fara með. Lögð var fram þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslur á Alþingi 4. október 2011. Þar stendur orðrétt:

„Framkvæmdarvaldinu er skylt að fara að vilja Alþingis og hófst undirbúningsvinna að umsókninni í kjölfar samþykktar þingsályktunarinnar.“ — Þá er verið að tala um umsókn um aðildarviðræður að ESB.

Áfram segir:

„Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er hörð gagnrýni á stjórnsýslu og vinnubrögð framkvæmdarvaldsins og bent er á að gagngerra úrbóta sé þörf.“

Hér kemur það sem er eiginlega skemmtilegast í ljósi þess sem hefur verið að gerast undanfarið og mig langar að spyrja hvort þið, hv. þingmenn Framsóknar, eruð ekki sammála þessu:

„Fyrir Alþingi hefur verið lögð þingsályktunartillaga um að draga umsóknina um aðild að Evrópusambandinu til baka. Alþingi eitt hefur vald til að draga umsóknina til baka, en minnt er á að sami þingmeirihluti situr nú og við samþykkt umsóknarinnar.“

Það var hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sem orðaði sína þingsályktunartillögu á þennan hátt og mér þætti mjög vænt um að fá svör við því frá þingmönnum Framsóknarflokksins hvort þeir eru samþykkir því að einungis Alþingi geti dregið umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka í formi þingsályktunartillögu.