144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:32]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í stuttu andsvari við hæstv. ráðherra þegar hann kemur loksins í andsvör eftir ræðu sína, nú getum við farið í andsvör við ráðherrann því að hann var í ræðustól, langar mig að spyrja hann aðeins út í ferlið frá því að hann fór inn í ríkisstjórn á þriðjudaginn fyrir viku með þessa tillögu og ef til vill með þetta illa orðaða bréf og fékk það samþykkt þar og síðan líða nokkrir dagar þar sem enginn fékk að vita hvað þar var sagt. Fundur utanríkismálanefndar var á fimmtudagsmorgun. Þar mættu fjölmargir fulltrúar úr utanríkisráðuneytinu. Af því að utanríkisráðherra og ráðuneytinu ber skylda samkvæmt þingsköpum að hafa samráð við utanríkismálanefnd um meiri háttar utanríkismál er spurning mín til hæstv. ráðherra þessi: Af hverju fóru ekki hæstv. ráðherra eða fulltrúar hans og gerðu utanríkismálanefnd grein fyrir þessari samþykkt ríkisstjórnarinnar?