144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Í upphafi þessa máls fór ég ágætlega yfir það hvers vegna ég mat það þannig að ekki þyrfti að hafa frekara samráð við utanríkismálanefnd en þegar hafði verið gert. Ég vitnaði áðan í lokaræðu minni í fordæmi um slíkt, meðal annars þegar hv. þm. Kristján L. Möller og flokkur hans studdu innrás og árás á Líbíu undir merkjum NATO. Þá taldi ágætur forveri minn í starfi sig hafa talað það oft um málið í utanríkismálanefnd og þá væntanlega í þinginu að ekki þyrfti að hafa samráð við utanríkismálanefnd um það mál. Það varð hins vegar tilefni til umræðna í þinginu hvort þurft hefði að hafa samráð eða ekki.

Mat mitt var að ekki þyrfti að fara fyrir utanríkismálanefnd með þessa aðgerð eftir allt sem rætt hafði verið um þetta mál í þinginu, um skýrsluna, stefnu stjórnvalda, mætingu fyrir utanríkismálanefnd, efasemdir um heimildir ráðherra til að leysa upp samningahópa, lögfræðiálit varðandi þær heimildir, allt sem rætt hafði verið var allt út frá sömu stefnunni, stefnu ríkisstjórnarinnar sem alltaf hefur legið fyrir. Það hafði engin breyting orðið á stefnu ríkisstjórnarinnar. Hún hefur alltaf legið fyrir. Menn geta hins vegar togast á um hvort það sé góð regla, hvort það sé skynsamlegt eða ekki.

Við höfum heyrt fræðimenn velta því upp hvort þetta hafi verið nauðsynlegt eða ekki. Þeir hafa ekki verið sammála um það. Við sjáum líka að það er ákveðinn óskýrleiki í þessu vegna þess að ákvörðunin byggir á mati ráðherrans. Ef menn vilja ræða hvort þetta eigi að vera með ákveðnum hætti þá þarf að gera það, að sjálfsögðu. En ég held að þetta þurfi að vera svona. Það þarf að vera hægt að taka ákvarðanir mjög hratt en að sjálfsögðu reynir þá á að ráðherrann misnoti ekki þá heimild. Og það gerði ég ekki frekar en forveri minn.