144. löggjafarþing — 81. fundur,  18. mars 2015.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að öll nótt sé ekki úti enn í því máli. Ég verð að segja að ég er þakklátur hæstv. utanríkisráðherra fyrir það liðsinni sem hann hefur lagt því máli. Honum hefur tekist á síðustu dögum ekki bara að haga málum Íslands þannig erlendis að hægt er að segja og mér finnst að hæstv. ráðherra hafi eiginlega gert ríkisstjórn Íslands að ómerkingi í útlöndum heldur hefur hann um leið gert allt annað, honum hefur tekist að vekja upp Evrópumálin. Hann hefur sett þau á dagskrá, hann hefur í reynd orðið þess valdandi að 8 þús. manns komu saman á mótmælafund og hann hefur sameinað stjórnarandstöðuna um þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur ekki tekist áður. Þetta hefur hæstv. ráðherra gert.

Þannig að ég vil bara svona í ferðalok þakka honum kærlega fyrir það vegna þess að ég held að fáir menn hafi, a.m.k. í síðustu viku og jafnvel ef maður hugsar allan hans feril, lagt jafn gjörva hönd á það verk og hann. Honum hefur t.d. tekist það sem mér tókst ekki, að stórfjölga í liði þeirra sem vilja beinlínis ganga inn í Evrópusambandið. (Forseti hringir.) Þannig að ef ég má, herra forseti, án þess að það sé of mikil kerskni, útnefna hann starfsmann (Forseti hringir.) þessarar viku.