144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

innheimta útboðsgjalds vegna tollkvóta.

[11:05]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég skil það þá þannig að ekki sé búið að ákveða hvort dómnum verði áfrýjað. Það kemur væntanlega í ljós. Mér finnst enn og aftur hæstv. ráðherra fara einhvern veginn undan í flæmingi þegar rætt er um tollkvótana. Þó að einhvern tímann hafi verið reynt að varpa hlutkesti og menn hafi farið einhvern veginn fram hjá kerfinu stoppa menn bara í þær glufur. Það eru ýmsar leiðir færar. Það má útdeila þessum tollkvótum miðað við stærð á markaði að hluta til og deila svo einhverri rest jafnt á alla. Það eru ýmsar leiðir færar og ég vil kannski fá á hreint núna: Hafa hagsmunaaðilar raunverulega verið beðnir um einhverjar tillögur? Hefur ráðherra kallað til samráðsfundar þar sem allir hafa sest niður og sagt: Hvernig getum við gert þetta? Hvernig getum við deilt út þeim takmörkuðu gæðum sem tollkvótarnir eru þannig að allir séu sáttir? Ég hef unnið hjá slíkum hagsmunasamtökum en ég man (Forseti hringir.) aldrei eftir því að ráðherra eða stjórnsýslan hafi leitað til þeirra hvað þetta varðar. Ég vil fá þetta á hreint.