144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[12:06]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég sé mig tilknúinn til að kveðja mér hljóðs um fundarstjórn forseta til að vekja athygli á því að við þessa umræðu um skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál hefur fulltrúi stærsta stjórnarandstöðuflokksins í utanríkismálanefnd talað hér og rætt um þau mál sem hæstv. ráðherra ræddi ekki um og skautaði fram hjá, sem eru stór og brýn mál. Ég vek því athygli á því sem mér finnst mjög sérstakt og kannast ekki við að hafi gerst í langa tíð að hæstv. ráðherra treystir sér ekki, vill ekki, eða hver ástæðan er, koma hér upp í andsvör við talsmenn flokka sem eru að tala.

Hv. þingmaður benti á fjölmörg atriði úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar á þeim fjórum atriðum sem hann gerði að umtalsefni og gagnrýndi hér mjög margt og setti fram spurningar en hæstv. utanríkisráðherra treysti sér ekki, sem er mjög sérstakt, til að fara í andsvar. Ég minnist þess ekki að á síðasta kjörtímabili hafi hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þá sitjandi sem utanríkisráðherra, (Forseti hringir.) hafi ekki virt talsmenn flokkanna viðlits og komið í andsvör í þeim debatt sem það býður upp á til að svara og ræða þessi mál.

Ég vek athygli (Forseti hringir.) á þessu og spyr hæstv. utanríkisráðherra: Hvaða nýja stefna er þetta eða treystir hann sér ekki í umræðuna?