144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[14:03]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Jú, þetta er nánasarháttur og skammarlegt. Mér finnst það bara skammarlegt, ég skammast mín fyrir það. Það verður samt að segjast eins og er að sumir kalla þessa ríkisstjórn ríkisstjórn ríka fólksins og örlað hefur á meira örlæti gagnvart þeim sem minna þurfa á því að halda en þeim sem mest þurfa á því að halda, hvort heldur það er hér á landi eða í alþjóðastarfi okkar. Það er hryggilegt. Það mun ekkert breytast, ekki með þessa ríkisstjórn. Við munum halda áfram að verða okkur til skammar á alþjóðavettvangi á þessu sviði. En það verður líka að segjast eins og er að við verðum okkur stundum til skammar á alþjóðasviði þegar við þykjumst vita mest um jarðhitaorku. Nú er til dæmis að koma í ljós að það er ekki óendanleg orka og þarf að ráðstafa henni mjög vel eins og hefur komið í ljós á Hellisheiði. Mér finnst mjög vont að við séum að þykjast vita meira og miðla þekkingu á málum sem við erum enn að rannsaka. Þess vegna held ég að í alþjóðastarfi þurfum við að sýna meira örlæti og raunverulega þekkingu. Við höfum staðið okkur vel varðandi kvenfrelsismál á Íslandi miðað við mörg ríki sem við berum okkur saman við, en við stöndum okkur ákaflega illa þegar kemur að þátttöku í að sýna ábyrgð í þróunarsamvinnu og gætum tekið Bandaríkin okkur til fyrirmyndar.

Varðandi Þróunarsamvinnustofnun og það sem er að gerast þar verð ég að kynna mér frumvarpið betur. En mér skilst á hv. þingmanni að þetta sé ekki gott skref. Ég mun svo sannarlega kynna mér það mjög ítarlega og mynda mér rækilega skoðun þar að lútandi þegar ég er búin að því.