144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[14:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir ágæta ræðu. Hún ítrekaði í ræðu sinni þá sérstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að standa gegn aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og talaði, eins og talsmenn þess flokks hafa lengi gert, um að aðrar leiðir væru betri til að tryggja öryggi landsins í viðsjárverðum heimi. Ég velti fyrir mér í því sambandi hvort hún telji að ekkert hald sé, ef við getum orðað það svo, í 5. gr. NATO-sáttmálans sem er grundvallargreinin um að árás á eitt aðildarríkjanna sé árás á þau öll. Það hefur verið litið svo á að í því felist fælingarmáttur, það þýði að aðrir hugsi sig tvisvar um áður en þeir ráðist á eitt af aðildarríkjum bandalagsins vegna þess að þar með séu þeir komnir í átök við þau öll. En því spyr ég að þetta er auðvitað, getum við sagt, í þeim viðsjám sem nú eru uppi í Evrópu helsta haldreipi Eystrasaltslandanna sem meta það svo, Eistland, Lettland og Litháen, að aðild þeirra að Atlantshafsbandalaginu og tilvist 5. gr. sé í raun helsta vörn þeirra gagnvart útþenslustefnu og yfirráðastefnu Rússa, sem hefur birst okkur svo skýrt í Úkraínu.