144. löggjafarþing — 82. fundur,  19. mars 2015.

utanríkis- og alþjóðamál.

621. mál
[14:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur hingað til verið eina stjórnmálahreyfingin sem er formlega með það í stefnuskrá sinni að vera ekki hluti af Atlantshafsbandalaginu. Við höfum því lagt til, eins og í fleiri umdeildum málum, að í þeim efnum sé rétt að spyrja þjóðina og það ætti ekki nokkur maður að óttast slíka atkvæðagreiðslu. Hún fór auðvitað aldrei fram á sínum tíma þegar ákveðið var að ganga í Atlantshafsbandalagið og það væri ekki vitlaust samhliða því að við höldum þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald Evrópusambandsmálsins, sem ég ímynda mér að hljóti að gerast bráðlega, að spyrja fólk í leiðinni að þessu.

Þá er það Evrópustefnu stjórnvalda sem hv. þingmaður hefur greinilega lagt á minnið, sem er merkilegt því að við höfum mjög lítið séð af framkvæmdum eða efndum á þeirri stefnu. Það er rétt, það átti að liggja fyrir hagsmunamat af EES-samningnum. Ég hef ekki orðið vör við það að fulltrúar stjórnarflokkanna tali enn þá fyrir því að slíkt mat verði gert, en það átti að liggja fyrir haustið 2014 sem er nú liðið.

Það er sömuleiðis boðaður samráðshópur og lögð áhersla á áframhaldandi norrænt og vestnorrænt samstarf til að efla hagsmunagæslu á Evrópuvettvangi. Um það hef ég heldur ekki heyrt og kannski ástæða til að spyrja sérstaklega hæstv. samstarfsráðherra sem kemur hér á eftir.

Eftir því sem við hv. þingmenn í utanríkismálanefnd erum upplýst hafa ekki sést miklar efndir. Það er auðvitað ástæða til þess að óska eftir skýrslu um framkvæmd Evrópustefnunnar inn í sali Alþingis svo við sem hér sitjum getum áttað okkur á því hvað nákvæmlega stendur til að gera og hvort jafnvel hafi verið hætt við eitthvað af þeim stefnumiðum sem þarna voru kynnt.